Vanræksla helsta ástæðan

Tilkynningum til barnaverndaryfirvalda fjölgaði í fyrra og er það í fyrsta skipti í nokkur ár sem það gerist. 36,2% tilkynninga var vegna vanrækslu gagnvart börnum, 26,1% vegna ofbeldis gagnvart börnum, 37% vegna áhættuhegðunar barna og loks 0,7% vegna þess að heilsa eða líf ófædds barns var í hættu, segir í skýrslu Barndaverndarstofu fyrir árin 2012 og 2013.

Á árinu 2013 fjölgaði tilkynningum um rúmlega 8% frá árinu á undan og voru alls 8.615. Þetta er öndvert við þróun undanfarinna ára ef árið 2009 er undanskilið. Tilkynningum fjölgar mest í Reykjavík eða um 12%, fækkar hins vegar aðeins í nágrenni Reykjavíkur en fjölgaði um tæplega 10% á landsbyggðinni.

Fjöldi tilkynninga náði hámarki á árinu 2009, en þá bárust 9.353 tilkynningar til barnaverndarnefnda á Íslandi. Fram til ársins 2012 fækkaði tilkynningum og voru tilkynningar 7.953 á árinu 2012. Munaði þar mestu um fækkun tilkynninga í Reykjavík það árið.

Á síðustu árum hefur orðið hlutfallsleg fækkun tilkynninga vegna áhættuhegðunar barns en fjölgun tilkynninga vegna ofbeldis og vanrækslu barna. Flestar tilkynningar bárust frá lögreglu sem fyrr þó nokkuð hafi dregið úr þeim undanfarin ár í hlutfalli við aðra tilkynnendur.

Oft berast fleiri en ein tilkynning vegna sama barns og því gefur fjöldi barna að baki tilkynningunum annað sjónarhorn við mat á stöðu mála.

Vörðuðu 4.880 börn 

Alls vörðuðu tilkynningar 4.880 börn á árinu 2013 sem er smávægileg fjölgun frá árinu á undan og svipaður fjöldi og var árið 2011. Algengara er að tilkynningar berist um drengi en stúlkur og enn fremur hefur hlutfall barna yngri en 10 ára aukist síðustu ár, segir í skýrslu Barnaverndarstofu.

Tilkynning til barnaverndarnefndar verður að barnaverndarmáli þegar ákveðið er að hefja könnun máls. Þróun undanfarinna ára hefur verið sú að barnaverndarmálum hefur fjölgað jafnt og þétt, þ.e.a.s. sífellt fleiri tilkynningar leiða til könnunar máls.

Mál 69% barna sem tilkynnt var um á árinu 2013 fóru í könnun eða voru opin barnaverndarmál. Þetta hlutfall hefur farið vaxandi á síðustu árum, t.d. var það 60% árið 2011.

„Getur þetta bent til þess að barnaverndarnefndir hafi meira svigrúm til að kanna mál en áður var og/eða að málin séu nú alvarlegri en fyrr,“ samkvæmt inngangsorðum Braga Guðbrandssonar í skýrslunni.

Börnum á Stuðlum og öðrum meðferðarheimilum hefur fækkað í kjölfar aukinnar meðferðar barna í þeirra nærumhverfi.

„Ugglaust skýrist þessi þróun af aukinni þekkingu fagfólks sem og foreldra á takmörkunum stofnanameðferðar þótt vissulega mæti góðar meðferðarstofnanir best þörfum afmarkaðs hóps barna tímabundið,“ segir í skýrslunni.

327 börn voru í fóstri í fyrra

Ekki urðu teljandi breytingar á fjölda fósturráðstafana á árunum 2012 og 2013 þótt heldur hafi dregið úr styrktu fóstri. Alls voru 327 börn í fóstri á árinu 2013, litlu færri en árið 2012 en svipaður fjöldi og árin þar á undan.

Í Barnahúsi voru rannsóknarviðtöl 253 árið 2013, en þau hafa aldrei verið fleiri frá stofnun Barnahúss.

„Aukning á rannsóknarviðtölum skýrist fyrst og fremst af mjög mikilli fjölmiðlaumfjöllun í upphafi ársins um ítrekuð kynferðisbrot tiltekins brotamanns sem spönnuðu áratugi, en reynslan kennir að opinber umræða um þessi mál leiðir gjarnan til fjölgunar tilvísana í Barnahús.

Athyglisvert er að rannsóknarviðtölum fjölgar vegna fjölgunar á skýrslutökum fyrir dómi, en nærri lætur að þær hafi tvöfaldast árið 2013 miðað við árið á undan. Bendir þetta til að Barnahúsið hafi fest sig í sessi sem ákjósanlegur vettvangur fyrir dómara til að fá fram frásögn barns,“ segir ennfremur í skýrslunni.

Starfsemi Barnahúss kemur til með að aukast með nýju húsnæði …
Starfsemi Barnahúss kemur til með að aukast með nýju húsnæði stofnunarinnar. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert