Vilja vekja athygli á mansali

AFP

Íslenskum stjórnvöldum hefur miðað vel til við að koma í veg fyrir og berjast gegn mansali. Þetta kemur fram í matsskýrslu sem sérfræðingahópur Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali, GRETA (Group of Experts on Action against Trafficing in Human Beings), hefur birt. Skýrslan er sú fyrsta sem unnin er um Ísland, en hópurinn hefur gert sambærilegar skýrslur um önnur Evrópulönd.

Í skýrslunni fagnar GRETA þeim skrefum sem Ísland hefur tekið til að koma í veg fyrir og berjast gegn mansali, meðal annars með þeirri löggjöf sem samþykkt hefur verið í landinu, tveimur innlendum aðgerðaráætlunum sem gerðar hafa verið og samræmdri uppbyggingu í málaflokknum.

Lögð áhersla á frekari aðgerðir

Í skýrslunni er hins vegar lögð áhersla á þörf fyrir frekari aðgerðir til að vekja athygli á mansali í þeim tilgangi að koma í veg fyrir misnotkun vinnuafls. Þar á meðal er talað um þátttöku frjálsra félagasamtaka og stéttarfélaga í þróun, framkvæmd og mati á stefnu gegn mansali.

Aðeins eitt fórnarlamb mansals hefur verið opinberlega viðurkennt hér á landi, í máli sem leiddi til sakfellingar á manseljendunum árið 2010. GRETA hvetur íslensk stjórnvöld til að setja upp formlegt innlent tilvísunarkerfi sem skilgreinir skýrar verklagsreglur og hlutverk fyrir alla þá aðila sem kunna að komast í snertingu við fórnarlömb mansals. Ennfremur biður GRETA íslensk stjórnvöld að bæta auðkenningu fórnarlamba mansals meðal farandverkamanna og hælisleitenda, og setja upp aðferðir til að bera kennsl á börn sem eru fórnarlömb mansals.

Fagna bótum sem fórnarlömb á Íslandi hljóta

Þá mælir GRETA með því að ákvæði í íslenskum lögum fái sex mánaða umþóttunartíma ásamt reglum um dvalarleyfi fyrir fórnarlömb mansals, bæði á grundvelli persónulegra aðstæðna þeirra og í samstarfi við rannsóknir og meðferðir sakamála. Hins vegar er í skýrslunni lögð áhersla á þörfina fyrir það að tryggja að fórnarlömb mansals geti hagnast á framkvæmd þessara réttinda.

Ennfremur fagnar GRETA þeim ramma um ríkisbætur sem fórnarlömb á Íslandi hljóta og biður stjórnvöld að tryggja það að fórnarlömb mansals séu markvisst upplýst um þá möguleika bóta sem fyrir hendi eru og þeim sé tryggður skilvirkur aðgangur að lögfræðiaðstoð.

Vilja bæta þekkingu og sérhæfingu sérfræðinga

GRETA hvetur einnig íslensk stjórnvöld til að gera frekari ráðstafanir til að tryggja að mansalsbrot séu rannsökuð og saksótt á áhrifaríkan hátt, með því að bæta þekkingu og sérhæfingu rannsóknarmanna, saksóknara og dómara.

Áður en matsskýrslan var gerð hafði GRETA samráð við yfirvöld og frjáls félagasamtök sem starfa á sviði baráttu gegn mansali á Íslandi. Fyrstu drög skýrslunnar voru send til íslenskra stjórnvalda og athugasemdir þeirra voru teknar með í reikninginn í endanlegri matsskýrslu sem samþykkt var af GRETA. Á grundvelli skýrslunnar mun nefnd taka tillögur til athugunar til ríkisstjórnar Íslands.

Hér fyrir neðan má sjá skýrsluna í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert