Björgun fari fyrir árslok 2016

Björgun ehf. þarf að rýma lóðina fyrir árslok 2016.
Björgun ehf. þarf að rýma lóðina fyrir árslok 2016. Þórður Arnar Þórðarson

Ákveðið hefur verið að senda Björgun ehf. formlega uppsögn á afnotum af lóðinni á Sævarhöfða þar sem fyrirtækið hefur verið með starfsemi sína. Gefinn er tveggja ára fyrirvari fyrir Björgun að rýma svæðið. Þetta kom fram á síðasta fundi Faxaflóahafna. Starfsemi Björgunar í Ártúnshöfðanum skal því vera aflögð fyrir lok árs 2016.

Hafnarstjóri fór á fundinum yfir viðræður Björgunar ehf., Faxaflóahafna sf. og Reykjavíkurborgar og stöðu mála. Viðræður síðustu mánaða og ára hafa ekki borið árangur og því þykir óhjákvæmilegt að undirbúa nauðsynlegar aðgerðir til að rýma lóðina. 

Stjórn Faxaflóahafna sf. samþykkti því eftirfarandi:

„Faxaflóahafnir sf. hyggjast því segja Björgun ehf. formlega upp afnotum á Sævarhöfða 33, Reykjavík og er fyrirætlun stjórnarinnar eftirfarandi: 

a. Afnotum Björgunar ehf. af 3.161 m2 lóðarinnar að Sævarhöfða 33, Reykjavík, verði sagt upp og miðað við að lóðin verði rýmd eigi síðar en í árslok árið 2016.

b. Björgun ehf. verði tilkynnt jafnhliða að félaginu beri að víkja af 73.503 m2 lóðarinnar að Sævarhöfða 33, Reykjavík, með sama fyrirvara og tilgreindur er í staflið a.

c. Hafnarstjóra verði falið að skoða hvort rétt sé að nýta kauprétt að fasteignum á lóðinni, á grundvelli mats dómkvaddra matsmanna ef ekki næst samkomulag um kaupverð. Kauprétturinn byggist á ákvæðum útrunnins lóðarleigusamnings aðila frá 21. ágúst 1969.

d. Haldið verði til haga skyldum Björgunar ehf. til hreinsunar aðliggjandi fjöru og botns þar sem steinefni og silt hafa runnið í sjó og myndað grynningar.“

Þá segir að þótt afstaða Björgunar til einstakra þátta málsins liggi fyrir í bréfum, greinargerðum fyrirtækisins til Faxaflóahafna og fundargerðum samþykkir stjórn Faxaflóahafna að veita Björgun tíu daga frest til að koma á framfæri sjónarmiðum sínum til framangreindra áforma stjórnarinnar áður en ákvörðun verður tekin í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert