Einn fréttastjóri yfir öllum miðlum

365 miðlar.
365 miðlar. mbl.is/Ómar

„Ég er ótrúlega stoltur af því sem ég hef gert og geng bara sáttur frá fyrirtækinu. Ég hef fengið mörg tækifæri þar sem ég kann að meta,“ segir Breki Logason sem nýlega var sagt upp störfum sem fréttastjóri Stöðvar 2. Starf frétta­stjóra frétta­stofu Stöðvar 2 var jafnframt lagt niður.

„Þetta er engu að síður leiðinlegt. Ég er búinn að vinna hjá fyrirtækinu meira og minna í áratug og fólkið á ritstjórninni bestu vinir mínir. Þetta var hópur af fólki sem ég hafði komið að því að setja saman og ég tengist því fólki mikið. Það er fremur glatað að það sé bara búið núna. Fréttastofa er ekkert annað en fólkið sem þar er að vinna og það er ótrúlega mikið af hæfileikaríku og flottu fólki að vinna á fréttastofu Stöðvar 2. Ég er stoltur af því að hafa unnið með þeim,“ segir hann.

Var boðið að starfa sem almennur blaðamaður

Miklar hræringar hafa verið hjá 365 miðlum að undanförnu og skipulagi breytt innan fyrirtækisins. Einn fréttastjóri, Sigurjón M. Egilsson sem áður var skipaður fréttaritstjóri 365 miðla, er nú yfir öllum miðlum fyrirtækisins og stýrir því meðal annars Stöð 2, Vísi, Fréttablaðinu og Bylgjunni. Andri Ólafsson, sem áður var skipaður fréttastjóri á Fréttablaðinu, hefur nú tekið við sem aðstoðarfréttastjóri þvert á alla miðla fyrirtækisins. Vakstjórar hafa jafnframt verið skipaðir, Hrund Þórsdóttir á Stöð 2 og Kolbeinn Tumi Daðason á Vísi. Breki, sem hafnaði starfi almenns blaðamanns hjá fyrirtækinu, kveðst þó ekki ætla að láta deigan síga þrátt fyrir uppsögnina. 

„Ég er í MBA námi í Háskólanum í Reykjavík, er á öðru ári þar. Ég einbeiti mér bara að því núna auk þess sem ég á tvær litlar stelpur sem ég hef hitt alltof lítið sökum vinnu. Ég trúi því líka að maður sé dæmdur af því sem maður gerir og stendur fyrir og ég fann það hjá fólkinu sem var að kveðja mig að það hefur tekið eftir því sem ég hefur verið að reyna að koma á framfærir. Það koma önnur tækifæri,“ segir Breki að lokum með stóískri ró.

Kristín Þorsteinsdóttir, útgefandi 365 miðla, vildi ekki tjá sig um hrókeringarnar en samkvæmt upplýsingum mbl.is er ekki von á frekari uppstokkun að svo stöddu.

Breki Logason.
Breki Logason.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert