Hópuppsögn hjá sérstökum saksóknara

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari.
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari. mbl.is/Þórður

Ákveðið hefur verið að segja upp 16 starfsmönnum hjá embætti sérstaks saksóknara. Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, segir í samtali við mbl.is að átta starfsmönnum hafi verið sagt upp og átta embættismönnum verið veitt lausn frá starfi.

„Þetta er liður í því að fara úr rúmlega 70 manns og niður í 50,“ segir Ólafur og bætir við að þetta tengist því að fjárveitingar til embættisins hafa dregist verulega saman á milli ára.

„Embættið mun kosta yfir þetta ár um 900 milljónir en fer í 292 [milljónir á næsta ári] samkvæmt fjárlögum,“ segir Ólafur og bætir við að það sé rúmlega 60% samdráttur á milli ára.

Ólafur tekur hins vegar fram, að fjárlagafrumvarp næsta árs sé enn til meðferðar í þinginu. Endanleg niðurstaða liggi því ekki fyrir að svo stöddu. Það sé ekki útilokað að embættið þurfi að skera meira niður.

Uppsagnirnar taka gildi frá og með deginum í dag. „Þeir sem eru á þriggja mánaða uppsagnafresti eru þá til áramóta. Þeir sem eru að fá lausn úr embætti, það miðast við 1. nóvember. Þá ganga þeir út,“ segir Ólafur.

Ákvæði um biðlaun gilda um opinbera embættismenn en ákvæði um uppsagnarfrest um almenna starfsmenn. Ólafur tekur fram að uppsagnirnar dreifist um öll svið embættisins.

„Við erum að taka þetta niður í samræmi við það sem kemur fram í þessu frumvarpi,“ segir Ólafur.

Aðspurður segir hann ferlið vera unnið í samræmi við lög um hópuppsagnir. Fyrst hafi verið haft samráð með fulltrúum stéttarfélaga. Í morgun var svo haldinn starfsmannafundur þar sem uppsagnirnar voru kynntar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert