Hraunbreiðan ekki undir 46 ferkílómetrum

Á meðfylgjandi LANDSAT 8 mynd frá því í hádeginu í …
Á meðfylgjandi LANDSAT 8 mynd frá því í hádeginu í gær koma gígarnir og hraunelfurin vel í ljós LANDSAT/Facebook síða Jarðvísindastofnunar

Frá miðnætti hafa mælst sjö skjálftar við Bárðarbunguöskjuna, sá stærsti 4 að stærð (klukkan 3:06), og tólf skjálftar við norðanverðan bergganginn. Einnig hafa mælst skjálftar við Herðubreið og Öskju, samkvæmt upplýsingum frá jarðvársviði Veðurstofu Íslands.

Stærsti skjálftinn við norðanverðan bergganginn var 2,4 að stærð kl. 00:26 en aðrir skjálftar hafa verið minni.

Samkvæmt vefmyndavél Mílu á Vaðöldu er eldgosið í Holuhrauni af svipuðum krafti og undanfarna daga.

Frá því á föstudag hefur tæplega 4 km langur taumur, um 2 km2 að flatarmáli, bæst við hraunið - samsíða fyrri farvegum. Hraunbreiðan í heild er því ekki undir 46 km², segir á facebooksíðu Jarðvísindastofnunar HÍ.

Örlítið hefur dregið úr hraða sigsins í öskju Bárðarbungu og er það nú um 40 cm á dag.

Næstu tvo daga (þriðjudag og miðvikudag) eru suðlægar áttir ríkjandi. Gasmengunin fer til norðurs frá gosstöðvunum. Þar sem dálítill breytileiki er í vindáttinni dreifist áhrifasvæðið frá Eyjafirði að Melrakkasléttu í dag en þrengist örlítið á morgun og markast þá af Bárðardal í vestri og Hólasandi í austri.

Af vef Veðurstofu Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert