Þungar áhyggjur vegna verkfalls

Landspítalinn við Hringbraut.
Landspítalinn við Hringbraut. mbl.is/Ómar

„Landspítalinn hefur þungar áhyggjur af þessu og við vonum að samningar náist á milli deiluaðila áður en til verkfalls kemur,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans í samtali við mbl.is um yfirvofandi verkfall skurðlækna.

Eins og fram kom í Morgunblaðinu í dag munu skurðlækn­ar kjósa um verk­fallsaðgerðir í þess­ari og næstu viku.

Páll segist hafa skilning á kröfum skurðlækna. „Kjör lækna á Landspítalanum eru fjarri því sem læknar geta fengið annars staðar. Þá er ég ekki aðeins að líta til útlanda heldur einnig hér innanlands. Mitt markmið er að Landsspítalinn sé eftirsóknarverður vinnustaður og margt liggur þar á baki, ekki bara laun en launin verða samt að vera viðunandi.“

Páll segir að ef verkfall verður verður hægt að sinna bráðaþjónustu og sinna öryggi liggjandi sjúklinga. „En það er ljóst að það sem getur beðið bíður í verkfalli. Því getur þó vissulega fylgt ákveðin öryggishætta ef hlutirnir bíða of lengi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert