Uppselt í sólina yfir jólin

Svo virðist sem sólin heilli Íslendinga, að minnsta kosti meira …
Svo virðist sem sólin heilli Íslendinga, að minnsta kosti meira en myrkrið og snjórinn í desember. Jim Smart

Uppselt var í ágúst í ferðir ferðaskrifstofunnar Vita til Kanaríeyja og Tenerife um jólin. Ekki stendur til að bæta við ferðum, þótt eflaust væri hægt að selja fleiri sæti. Jólin eru háannatími á þessum slóðum og eru hótel að verða fullbókuð.

Steinþóra Sigurðardóttir í söludeild Vita segir í samtali við mbl.is að alltaf seljist upp í ferðir Vita til þessara áfangastaða yfir jólin. Hugsanlegt er að eitt eða tvö sæti verði í sölu næstu vikur en það er þó aðeins ef þeir farþegar sem þegar hafa bókað afbóka eða breyta ferðum sínum. Ferðirnar sem um ræðir ná yfir jól og áramót.

Aðspurð segir Steinþóra að þeir sem hafa bókað ferð séu ekki endilega fastagestir í sólinni um jólin. Sumir kjósi vissulega frekar að verja jólunum nær miðbaug en aðrir fari ekki eins reglulega. 366 farþegar fara á vegum Vita yfir jólin, 183 manns á hvorn stað.

Ekki stendur til að bæta við ferðum á þessa vinsælu áfangastaði hjá Vita þar sem flest hótel á svæðinu eru þegar að verða fullbókuð.

Búið að selja um 600 sæti

Uppselt er í ferð Úrvals-Útsýnar til Las Palmas á Kanaríeyjum yfir jólin en örfá sæti eru laus til Tenerife á sama tíma. Rúmur mánuður er síðan uppselt var í ferðina. 

Ferðaskrifstofan býður upp á rúmlega 600 sæti í sólina þessi jól.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert