Elding laskar símstöð

Eldingar á Norður-Atlantshafi síðustu daga.
Eldingar á Norður-Atlantshafi síðustu daga. Kort/Veðurstofan

Eldingu laust niður í dreifikerfi símstöðvar Símans á Hvolsvelli, upp úr klukkan ellefu í gærkvöldi, leiddi inn í hana og olli bilunum. Viðgerð stendur yfir og er umfangsmikil, en einingar í talsímstöðinni brunnu yfir, segir í tilkynningu frá Símanum.

Rúmlega 300 talsímanotendur eru án sambands á Hvolsvelli og nágrenni. Hluti internetnotenda er einnig án nets.

Uppfært klukkan 12:24

Nú um hádegisbilið höfðu um tvö hundruð heimili fengið símasamband að nýju. Rétt rúm eitt hundrað heimili eru enn án talsambands. Öll fyrirtæki eru komin í samband. Unnið er hratt og örugglega að því að tengja þau heimili sem eftir standa, samkvæmt upplýsingum frá Símanum.

Samkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar var mikið um eldingar í nótt, og fram eftir morgni. Nú er rólegra yfir. Eldingarnar voru mestar á suðaustanverðu landinu; Eyjafjöllum, Mýrdal og austur á firði sunnanverða. Eldingaverður eins og í gær er ekki algengt en verður þó á hverju á ári, einu sinni til tvisvar. Eldingarnar voru öflugar í nótt. Tugir eldinga á hverri mínútu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert