Góður árangur íslenska landsliðsins í kotru á Evrópumótinu

Íslenska landsliðið í kotru.
Íslenska landsliðið í kotru.

Íslenska landsliðið í kotru náði stórgóðum árangri á Evrópumóti landsliða í Dubrovnik í Króatíu, sem er nýlokið. Þetta var frumraun íslenska liðsins í alþjóðlegri keppni, og var það hársbreidd frá því að spila um verðlaunasæti en endaði í 5. sæti. Danir urðu Evrópumeistarar, Austurríkismenn fengu silfrið og Grikkir brons.

Landslið Íslands var skipað þeim Róbert Lagerman, Gísla Hrafnkelssyni, Fjalari Páli Mánasyni, Daníel Má Sigurðssyni og Stefáni Frey Guðmundssyni.

Í fréttatilkynningu kemur fram að kotra nýtur vaxandi vinsælda meðal landsmanna og Kotrusamband Íslands var stofnað árið 2009. Bjarni Freyr Kristjánsson forseti Kotrusambandsins var kjörinn í stjórn Evrópusambandsins í kotru, á þingi aðildarlandanna sem fram fór samhliða mótinu.

Kotrusambandið stendur fyrir líflegu mótahaldi í vetur og eru nú um 100 keppendur á stigalista sambandsins. Hægt er að fylgjast með starfinu á Facebook-síðu Kotrusambandsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert