Halda yrði uppi öflugum forvörnum

Frá fundinum í morgun.
Frá fundinum í morgun. mbl.is/Hjörtur

Mikilvægt er að fólk spyrji sig hvort sala áfengis í matvöruverslunum sé skref fram á við þegar kemur að hagsmunum barna og unglinga eða ekki. Þetta sagði Þóra Jónsdóttir, lögfræðingur hjá Barnaheillum, meðal annars í erindi sem hún flutti í morgun á fundi samtakanna Náum áttum þar sem frumvarp til laga um að heimila áfengissölu í matvöruverslunum var til umfjöllunar.

Þóra ræddi á fundinum um frumvarpið með tillit til Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem hefur lagagildi hér á landi. Vakti hún meðal annars athygli á því að samkvæmt honum bæri stjórnvöldum að hafa það sem væri börnum fyrir bestu að leiðarljósi og tryggja þeim vernd. Lýsti hún áhyggjum af því að óskýrt væri í frumvarpinu með hvaða hætti ætti að tryggja að aldurstakmörkum yrði framfylgt vegna sölu á áfengi ef frumvarpið yrði að lögum. Benti hún á í því sambandi að starfsmenn verslana væru gjarnan ungmenni sjálfir. Eftirlit vínbúða ríkisins eins og staðan væri í dag væri mun áreiðanlegra í þeim efnum.

Yrði frumvarp að lögum væri gífurlega mikilvægt að halda uppi öflugum forvörnum og fylgjast vel með þróun mála með rannsóknum og skýrslutökum. „En auðvitað þurfum við í grunninn að spyrja: Er það afturför í vernd barna að stíga þetta skref? Þess leitum við svara nú og við þurfum að svara þeirri spurningu á skýran hátt, Hlusta á hvert annað og muna að við erum ábyrg fyrir því að börn haldi þeirri vernd sem við höfum þó náð fram.“ Þá yrði ennfremur nauðsynlegt að viðhalda banni við áfengisauglýsingum.

Aukið aðgengi að áfengi ávísun á meiri neyslu

Hildigunnur Ólafsdóttir afbrotafræðingur flutti einnig erindi á fundinum um rannsóknir á auknu aðgengi að áfengi. Tók hún dæmi frá ýmsum löndum þar sem rannsóknir sýndu að áfengisneysla ykist við það að heimila matvöruverslunum að selja áfengi. Þar á meðal frá Bandaríkjunum, Kanada, Nýja Sjálandi, Finnlandi og Svíþjóð. Rannsóknir á einsleitum samfélögum sýndu að neyslumynstur allra breyttist.

„Þeir sem drekka mest auka neysluna mest enda sækjast þeir meira eftir áfengi en aðrir. Menningarlegar og samfélagslegar aðstæður hafa áhrif á það hvaða hópar auka neysluna meira en aðrir og þeir hópar sem hafa fundið mest fyrir hömlum þeir munu væntanlega auka mest neysluna þegar hömlurnar hverfa,“ sagði Hildigunnur. Þá væri þekkt að aukin áfengisneysla hefði í för með sér meiri heilbrigðisvanda í félagi við félagslegar afleiðingar.

„Þær eru þó ekki endilega þær sömu fyrir alla og okkur vantar meiri þekkingu á því hverjir eru í raun næmastir fyrir þeim og hvaða hópar eru viðkvæmastir,“ sagði hún. Áfengisneysla á heimilum myndi væntanlega aukast hér á landi þar sem slík neysla færi mest fram þar hér á landi. Þá fyrir framan börn. Frá lýðheilsusjónarmiðum væri verslun með áfengi og önnur vímuefni best fyrir komið í höndum ríkisins. Hún útilokaði samkeppni á markaði og kæmi í veg fyrir að einkaðilar hefðu hag af meiri áfengissölu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert