„Karlar geta ekki setið hljóðir hjá“

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra tilkynnti í ræðu sinni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York í vikunni að Ísland hefði forgöngu, ásamt Súrinam, að efna til svonefndrar „rakarastofu“ ráðstefnu í New York í byrjun næsta árs þar sem karlar munu koma saman til að ræða kynjajafnrétti og framlag karla til að bæta stöðu kvenna í heiminum.

Í tilkynningu sem utanríkisráðuneytið hefur sent frá sér vegna þessa kemur fram að Ísland sé afar virkt í jafnréttismálum á alþjóðavettvangi og er oftar en ekki í fararbroddi í alþjóðlegri jafnréttisumræðu.

„Við höfum rekið okkur á það í umræðu um jafnrétti, sérstaklega á alþjóðavettvangi, að þar eru oftast konur að ræða við aðrar konur um þessi brýnu úrlausnarefni sem varða alla, óháð kyni, aldri eða kynþætti. Karlar geta ekki setið hljóðir hjá og því er mikilvægt að fá menn með í baráttunni fyrir kynjajafnrétti, samfélaginu í heild til góðs. Á þetta ekki síst við þegar við tölum til manna sem telja ofbeldi gegn konum vera hluta af karlmennsku. Karlar eru ekki bara vandamálið heldur líka mikilvægur hluti af lausninni,“ er haft eftir Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra í tilkynningu ráðuneytisins.

Fyrirhuguð rakarastofuráðstefna mun fara fram á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í New York 14. til 15. janúar næstkomandi og er framlag Íslands og Suður-Ameríkuríkisins Súrínam til að virkja karla og stráka í baráttunni fyrir jafnrétti. Er þar um að ræða framhald af ráðstefnu sem haldin verður á Indlandi í nóvember á þessu ári þar sem karlar og samtök karla um jafnrétti munu koma saman.

Rakarastofan er framlag Íslands til HeforShe átaksins sem nýlega var hleypt af stokkunum með áhrifaríkum hætti af leikkonunni Emmu Watson, þar sem meginhugsunin er sú að það þurfi að breyta staðalmyndinni um karla.

Rakarastofan er í mörgum löndum og menningarheimum ímynd fyrir staði þar sem karlar koma saman og ræða m.a. samskipti sín við konur. Þannig verða umræður á rakarastofum, búningsklefum eða öðrum samkomustöðum karla ein af ástæðum þess að staðalmyndir ef hlutverkum kvenna og karla festast í sessi. Hugmyndin á bak við þetta framlag Íslands og Súrinam er að nýta vettvang „rakarastofunnar“ til að breyta umræðunni á rakarastofum um allan heim þar sem kynjajafnrétti og virðing fyrir konum er fest í sessi og ofbeldi gegn konum hafnað.

„Þetta er virkilega spennandi frumkvæði sem rekja má til Grétu Gunnarsdóttur, fastafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum. Viðbrögðin færa okkur heim sanninn um hve mikið hefur áunnist á Íslandi í þessum málaflokki og hve mikið við höfum fram að færa til alþjóðasamfélagsins. Er sérstaklega ánægjulegt að sjá hversu jákvæð og sterk viðbrögð þetta frumkvæði hefur fengið bæði hér heima og erlendis,“ er haft eftir Gunnari Braga.

Á ráðstefnunni, sem að hluta til verður opin, munu ráðherrar, sérfræðingar og fulltrúar ríkja og félagasamtaka ræða leiðir til að fá karla til að taka þátt í jafnréttisbaráttunni og hvernig unnt sé að fá karla til að beita sér frekar fyrir kynjajafnrétti.

Frétt mbl.is: Ísland heldur karlaráðstefnu

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert