„Læka“ til að sýna jákvæð viðbrögð

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari.
Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari. mbl.is/Ómar Óskarsson

Á samfélagsmiðlinum Facebook kemur fram að „læk“ (e. like) sé leið til að sýna jákvæð viðbrögð og „lækið“ tengi notandann við hluti sem hann kærir sig um. Hér má lesa skilgreiningu Facebook á ensku.

Þetta er sama skilgreining og Ólafur Garðarsson, verjandi Gísla Freys Valdórssonar, aðstoðarmanns Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra sem hefur verið leystur frá störfum tímabundið, vísaði til í morgun þegar rætt var um notkun „læk“ á Facebook. Sagðist hann hafa leitað skýringa á „lækinu“.

Margir þekkja eflaust vel þumalfingurinn sem vísar upp í loftið, „læk-takkann“ sem fylgir myndum og stöðuuppfærslum á samfélagsmiðlinum vinsæla. Sumar færslur fá mörg „læk“ og bendir það til þess að þær veki af einhverri ástæðu athygli hjá vinum þeirra sem deila færslunum. Ekki skal þó segja til um ástæðu þess. 

Þó að skilgreining Facebook á „lækinu“ bendi til þess að um sé að ræða leið til að sýna jákvæð viðbrögð, er alls óvíst hvort þau sem nýti hnappinn íhugi vandlega hvað felst í því að „læka“ í hvert skipti sem hann er notaður. Í gegnum tíðina hafa notendur Facebook reglulega óskað eftir öðrum takka sem sýnir vandlætingu notanda (e. dislike). 

Hvað er eiginlega þetta „læk“?

Notkun Facebook var meðal þess sem rætt var í dómssal 202 í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun þegar frávísunarkrafa Gísla Freys í lekamálinu svokallaða tekin fyrir. 

Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari og saksóknari í málinu, sagði við aðalmeðferð málsins í morgun að þannig væri það með „lækið“, að eftir orðanna hljóðan þýddi það að líka eitthvað. Hann bætti síðan reyndar við að hann vissi sjálfur ekki hvaða merking fælist í því að „læka“ eitt­hvað á Face­book.

En af hverju var þetta til umræðu? Jú, líkt og komið hefur fram á mbl.is fyrr í dag og þann 20. september sl. „lækaði“ Helgi Magnús tiltekna stöðuuppfærslu þar sem Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, lýsir skoðun sinni á einum anga lekamálsins. 

Ólafur Garðarsson, verjandi Gísla Freys, krafðist þess að Helga Magnúsi yrði gert að víkja sæti í málinu þar sem hann hefði tjáð sig um málið. Vildi hann því meina að „lækið“ jafngildi tjáningu, því að taka afstöðu til tiltekins máls. 

Dómari málsins sagðist stöðu sinnar vegna ekki nota Facebook, virtist ekki átta sig á því í hverju það felst að „læka“, skildist að það fælist í því að ýta á einhvern takka og vildi því fá skýringar á málinu. 

Hvað ef maður hlær upphátt?

Helgi Magnús sagði aftur á móti að engin þátttaka fælist í því að „læka“ eitthvað á Facebook og hann hefði því ekki verið að taka afstöðu til sakarefnisins. Skopskyn manna væri misjafnt og benti hann meðal annars á að þeir sem nýta sér samfélagsmiðilinn „læki“ einnig dán­ar­fregn­ir og fregn­ir af því að sjúklingur sé um það bil að tapa bar­áttu sinni við krabba­mein.

„Ef maður hlær upp­hátt að ein­hverju svona, er það yf­ir­lýs­ing um málið, þátt­taka í umræðu?“ spurði hann. 

Þá sagði Helgi Magnús að afstaða ákæruvaldsins væri ljós, um það þyrfti ekki að deila, að Gísli Freyr væri sekur. Annars hefði ákæran ekki verið gefin út. Ákæruvaldið hefði metið það sem svo að gögn málsins sýni fram á sekt hans. 

„Það er al­gjör­lega frá­leitt og farsi að gera mál úr þessu,“ sagði Helgi Magnús. Ákær­andi hafi verið bú­inn að taka af­stöðu til þess að ákæra í málinu þegar „lækið“ var sett fram og því ætti afstaða hans ekki að koma á óvart.

Sá Helgi Magnús ekki ástæðu til þess að hann ætti að víkja sæti í mál­inu á þeim for­send­um að hann hefði „lækað“ stöðuupp­færsl­una. 

Dómari mun nú taka sér tíma til að taka afstöðu til frávísunarkröfunnar. Gera má ráð fyrir niðurstöðu á næstu vikum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert