Rangt að „Bónusvæða áfengissölu“

Árni Guðmundsson, lektor í tómstundafræðum við Háskóla Íslands, flytur erindi …
Árni Guðmundsson, lektor í tómstundafræðum við Háskóla Íslands, flytur erindi sitt. mbl.is/Hjörtur

Frumvarp til laga um að heimila sölu áfengis í matvöruverslunum hefur ekkert með velferð barna að gera og snýst fyrst og fremst um ítrustu viðskiphagsmuni. Þetta kom meðal annars fram í erindi sem Árni Guðmundsson, lektor í tómstundafræðum við Háskóla Íslands, flutti í morgun á fundi samtakanna Náum áttum þar sem frumvarpið var til umfjöllunar.

Árni spurði þeirrar spurningar í upphafi erindis síns hvort rétt væri að „bónusvæða áfengissölu“ og svaraði því neitandi. Benti hann á að í frumvarpinu væri þau rök færð fyrir sölu áfengis í matvöruverslunum að þær seldu þegar tóbak. Sagði hann ljóst að sala matvöruverslana og annarra einkarekinna verslana væri ekki í góðum málum. Vísaði hann í úttektir sem sýndu að börn og unglingar ættu ekki erfitt með að verða sér úti um slíkar vörur. Vínbúðum ríkisins væri miklu betur treystandi fyrir að selja ekki ungmennum áfengi. Ekki síst þar sem starfsfólk verslana væri að stóru leyti unglingar.

Gagnrýndi hann frumvarpið og greinargerðina með því fyrir að fjalla á engan hátt um velferð barna. Greinargerðin snerist ekki um annað en viðskiptahagsmuni. Gerði hann ennfremur að umtalsefni orðalag í henni um meint neikvæð áhrif þess að leyfa sölu áfengis í matvöruverslunum. Ljóst væri að höfundur hennar hefði ekki kynnt sér neinar rannsóknir í þeim efnum. Slíkt orðalag væri ekki boðlegt að hans mati í greinargerð með lagafrumvarpi sem lagt hefði verið fram á Alþingi.

Frumvarpið einungis skref aftur á bak

Árni ræddi einnig um áfengisauglýsingar en frumvarpið hefði væntanlega þau áhrif að þær yrðu leyfðar yrði það að lögum. Sagði hann foreldrasamfélagið varnarlaust gagnvart „boðflennum í líf barna og unglinga“ og vísaði þar til slíkra auglýsinga. Hafnaði hann þeirri skoðun sem hann sagðist stundum heyrast að auglýsingar á vörum ættu rétt á sér á grundvelli tjáningarfrelsisins. Hæstiréttur hefði þegar úrskurðað að auglýsingar væru áróður en ekki hluti af lýðræðislegri umræðu.

Markaðsvæðing áfengis, ekki síst gagnvart börnum og unglinum með aðstoð fremstu ímyndarsérfræðinga og auglýsingafólks auk gríðarlegs fjármagns, hefði þannig ekkert með lýðræðislega umræðu að gera að hans sögn. Um væri að ræða einhliða, keyptan áróður sem byggði á ítrustu viðskiptahagsmunum en ekki velferð barna og unglinga. Lauk hann erindi sínum með þeim orðum að núverandi fyrirkomulag varðandi sölu áfengis væri gott og frumvarpið væri einungis skref aftur á bak yrði það að lögum.

Frá fundinum í morgun.
Frá fundinum í morgun. mbl.is/Hjörtur
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert