Refur reif lamb í sig

Lambið hafði farið afvelta og fannst helsært í gærmorgun. Það …
Lambið hafði farið afvelta og fannst helsært í gærmorgun. Það var aflífað á staðnum. mynd/Snorri Jóhannesson

Það var ófögur sjón sem blasti við bónda í Borgarfirði í gærmorgun er hann fann lamb sem einn eða fleiri refir höfðu ráðist á og skilið eftir helsært við bæinn. Dýrið var lifandi en með ljót sár í andliti og á kvið. Bændur segja nauðsynlegt að leggja meira af mörkum til að fækka ref því núverandi ástand sé óviðunandi.

Sigvaldi Jónsson, bóndi í Hægindi í Reykholtsdal, segir í samtali við mbl.is, að lambið hafi farið afvelta frá bænum í fyrrinótt. Lambið fannst í gærmorgun skammt hjá bænum. „Það var nánast búið að éta af henni andlitið og rífa af henni kviðinn,“ segir hann.

Aðspurður Sigvaldi að þetta hafi ekki verið falleg sjón en dýrið var lifandi þegar hann kom að því. Lambið var aflífað á staðnum

Sigvaldi segir að enginn refur hafi verið sjáanlegur þarna um morguninn en menn hafa orðið varir við tófu á svæðinu að undanförnu. Seinna um daginn hafi að minnsta kosti þrjár tófur sést í námunda við bæinn.

Refurinn veldur sauðfjárbændum áhyggjum

Snorri Jóhannesson, bóndi á Augastöðum í Reykholtsdal, tók meðfylgjandi ljósmynd. Hann segir þetta veruleika sem blasi við bændum enda sé fjölgun refst vaxandi vandamál. Sú hætta sé fyrir hendi að tófan haldi áfram að ráðast á sauðfé þegar hún hefur komist á bragðið. 

Snorri segir að ekki sé nægilega vel staðið að grenjavinnslu og veiðum á ref. Það megi rekja til skipulagsleysis og fjárskorts, bæði hjá ríki og sveitarfélögum. „Það er ekki mikill vilji til að auka við það af því að þetta háskólamenntaða fólk vill heldur rannsaka þetta heldur en að veiða. Þetta eru hagsmunaárekstrar, annars vegar hjá rannsakendum og hins vegar hjá sauðfjárbændum. Maður verður að segja hlutina eins og þeir eru,“ segir Snorri og beinir orðum sínum að Umhverfisstofnun.

Sigvaldi tekur undir það. „Það er bara allt of lítið sem er veitt. Það þarf að leggja miklu meiri vinnu í þetta,“ segir hann og bætir við að bændur óttist búsifjar af völdum refsins. „Þá verður talsvert tap af þessu.“

Í síðustu viku var Sigvaldi að smala fyrir ofan bæinn og sáust sex tófur í þeirri ferð. „Það er mikið af tófu til. Það þarf að ráðast á þetta og fækka þessu verulega.“

Sigvaldi segir að hann sakni um 20 lamba og grunar hann að refurinn hafi náð að minnsta kosti hluta þeirra. Hann segir hvert lamb metið á um það bil 10.000 krónur og því sé tjónið töluvert.

Vill fá veiðistjóra

Aðspurður segir Snorri að bændur fái úthlutaðan ákveðinn kvóta til veiða á ári hverju. Hann segist mega skjóta 36 tófur í ár og er hann búinn með kvótann.

Snorri óttast að skrifræði í tengslum við veiðina muni aukast enn frekar. Menn þurfi líklega að sækja um fleiri leyfi og sýna þurfi fram á áætlað tjón af völdum refa.

„Ég vil bara fá meiri peninga í þetta frá ríki og sveitarfélögum og ég við fá veiðistjóra sem var hér alveg fram eftir 1980. Þá var einn maður á landinu sem sá um að fylgja þessu eftir, að þessi störf væru unnin og leiðbeina veiðimönnum.“

Snorri segir að vegna slælegra vinnubragða sé vandamálið stórt í dag. „Þetta er orðið skelfilegt ástand og það verður alltaf dýrara að koma þessu í ásættanlegt form eftir því sem dýrunum fjölgar meira. Svo eru tíð kynslóðaskipti hjá veiðimönnum; þegar það er hætt að leita ákveðin gren þá týnast í sumum tilfellum upplýsingar um þau,“ segir Snorri. Mikilvægt sé að þessum störfum sé sinnt samviskusamlega.

Snorri telur að það sé búið að rannsaka allt sem þurfi að rannsaka hvað refinn varðar. „Stofninn er það stór að engin hætta er á því að refnum verði útrýmt. En það þarf að halda stofninum innan skynsamlegra marka. Þetta á ekki að vera þannig að þegar þú ferð t.d. á rjúpnaskytterí að þú sjáir fleiri tófur heldur en rjúpur,“ segir hann að lokum.

Snorri vakti athygli á þessu vandamáli á facebooksíðu sinni. Varað er við myndum sem þar sjást.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert