Rýnt og reynt að ráða í hvern dag

Sigurjón Árnason og Sigurður Guðjónsson lögmaður í héraðsdómi í morgun.
Sigurjón Árnason og Sigurður Guðjónsson lögmaður í héraðsdómi í morgun. mbl.is/Golli

Hægagangur einkenndi fyrsta dag aðalmeðferðar í máli sérstaks saksóknara gegn fyrrverandi bankastjóra og þremur starfsmönnum Landsbankans. Skýrslutöku af fyrsta sakborningi lauk ekki eins og áformað var þrátt fyrir að þinghaldið hafi dregist fram á kvöld. Skýrslutöku yfir sama sakborningi verður haldið áfram á morgun.

Eins og fram hefur komið ákærði sérstakur saksóknari Sigurjón Árnason, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, Ívar Guðjónsson, fyrrverandi forstöðumann eigin fjárfestinga sama banka, og tvo starfsmenn eigin fjárfestinga, þá Júlíus S. Heiðarsson og Sindra Sveinsson.

Allir eru þeir ákærðir fyrir markaðsmisnotkun á tímabilinu 1. nóvember 2007 til 3. október 2008 og eru þeir sakaðir um að hafa handstýrt verðmyndun hlutabréfa í Landsbankanum og með því blekkt fjárfesta, kröfuhafa, stjórnvöld og samfélagið í heild.

Á umræddu tímabili keyptu eigin fjárfestingar 2.325.395.153 hluti af þeim 4.801.255.966 hlutum í Landsbankanum sem viðskipti voru með í sjálfvirkum pörunarviðskiptum, eða 48,4% af veltunni. Með kaupunum hafi þeir komið í veg fyrir eða hægt á lækkun á verði hlutabréfa í Landsbankanum og aukið seljanleika þeirra á kerfisbundinn hátt.

Júlíus og Sindri eiga að undirlagi Sigurjóns og Ívars, að hafa lagt í upphafi hvers viðskiptadags fram röð stórra kauptilboða með litlu innbyrðis verðbili í hlutabréf í Landsbankanum í tilboðabók Kauphallarinnar. Þeir hafi keypt áfram fram eftir degi og yfirleitt keypt á háu verði undir lok dags, til að hafa áhrif á dagslokaverð hlutabréfanna.

Enginn persónulegur ávinningur

Strax í upphafi dags sagði Júlíus, fyrsti sakborningurinn í skýrslutöku, að einstakar ákvarðanir á umræddu tímabili varði atvik sem gerðust fyrir sex til sjö árum síðan. „Ég á enga möguleika á að muna eftir því hvað bjó að baki þeim. [...] En þrátt fyrir að ég muni ekki hvað bjó að baki einstökum viðskiptaákvörðunum get ég með því að rýna í samtímagögn reynt að ráða í hvað líklega bjó að baki.“

Hann sagði að öll viðskipti sín fyrir bankann hafi hann byggt á opinberum upplýsingum enda hafi hann ekki haft neinn aðgang að öðrum upplýsingum. „Ég hafði engan persónulegan ávinning af því að halda uppi verði bréfanna. Ég átti óverulegan hlut í bankanum, sem ég hefði væntanlega selt ef ég vissi að verðinu var haldið uppi á óeðlilegan hátt. [...] Ef ákæruvaldið hefði virt þau hlutlægu vinnubrögð sem því ber skylda til hefði aldrei komið til þessarar ákæru.“

Vissi ekki hverjir keyptu

Saksóknari spurði meðal annars út í það hvers vegna hefði nánast aðeins verið keypt í sjálfvirkum pörunarviðskiptum en ekki selt. Júlíus skýrði þá frá því að flæðið með bréf í Landsbankanum hefði verið með þeim hætti að kaupendur þeirra hefðu leitað til verðbréfamiðlunar bankans ef þeir hugðust kaupa stóran hlut í honum. Þannig hefði það þróast að bréf hefðu yfirleitt verið seld í utanþingsviðskiptum. „Þetta var ekki ákveðið heldur þróun sem hafði myndast á margra ára tímabili.“

Hann sagði bankann hafa verið að selja gríðarlegt magn af bréfum á þessum tíma. „Gagnvart mér birtist þetta sem raunveruleg eftirspurn eftir bréfunum. Ég vissi aldrei hverjir þetta voru sem voru að kaupa bréfin eða stóðu að viðskiptunum.“

Júlíus sagði að eigin fjárfestingar hefðu ekki safnað bréfum upp í pantanir en það hefðu engu að síður stundum komið upplýsingum að mögulega væri að koma eftirspurn eftir bréfum.

Spila hvern viðskiptadag 

Þegar kom að því að spyrja út í tiltekin viðskipti á tilteknum dögum var notast við kauphallarherminn sem fjallað var um á mbl.is fyrr í dag. Þá vönduðust heldur betur málin því það var mun seinvirkara en gert var ráð fyrir. Spila þarf hvern og einn dag á umræddu tímabili, alls 228 viðskiptadaga, og skoða kauptilboð sem lögð voru inn á hverjum tíma dagsins. Það geta verið tugir tilboða á hverjum degi.

Eftir að búið var að kenna viðstöddum að lesa í upplýsingarnar úr herminum var haldið í að renna dögunum í gegnum herminn. Og þrátt fyrir tilmæli dómara um að finna ætti leið til að flýta skýrslutökunni var lokaniðurstaðan sú að það væri hreinlega ekki hægt. Spyrja væri um ákveðna hegðun í viðskiptunum.

Sem áður segir er tímabilið frá 1. nóvember 2007. Um miðjan dag var saksóknari kominn á nýtt ár, nánar tiltekið 4. janúar 2008. Spurningarnar voru yfirleitt þær sömu, þ.e. hvers vegna Júlíus lagði inn röð kauptilboða í upphafi dags og hvers vegna hann var tilbúinn að kaupa eigin bréf fyrir svo og svo hátt verð í lok dags.

Júlíus sagðist ávallt hafa verið innan sinna heimilda og skýrði kaupraðir oftast nær með því að hann hefði verið að sýna dýpt í lánabókinni. Þá sagði hann mögulegt að bankinn hefði selt bréf á hærra verði en hann keypti í lok dags, og það gæti skýrt kaupverðið. „Þá var mögulega búið að leggja okkur línuna um að halda stöðunni óbreyttri. Mögulega er verðið lægra en selt var fyrir fyrr um daginn.“

Þá fór hann yfir ýmislegt sem gæti hafa haft áhrif á gengi bréfanna, s.s. fjölmiðlaumfjöllun og utanþingsviðskipti. 

Ekki komin að páskum

Þegar klukkan var farin að nálgast fimm var saksóknari kominn að lokum febrúar og átti því enn eftir rúma sjö mánuði til að fara yfir. „Sjáum hvort við komumst ekki fram yfir páska,“ sagði þá Ragnheiður Harðardóttir, dómsformaður, og ákvað að haldið yrði áfram með skýrslutökuna fram til klukkan 18-18.30.

Áætlað var að skýrslutaka yfir hverjum og einum sakborningi tæki einn heilan dag. Alls óvíst er hversu langan tíma þarf í viðbót fyrir Júlíus einan en á eftir saksóknara fá verjendur tækifæri til að spyrja hann einnig út í atriði málsins. Ljóst er alla vega að tímaáætlun þessarar aðalmeðferðar, sem ljúka á 13. október er algjörlega farin úr skorðum og það á fyrsta degi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert