„Sumt eru línur og sumt þríhyrningar“

Sigurjón Árnason mætir til héraðsdóms Reykjavíkur í morgun.
Sigurjón Árnason mætir til héraðsdóms Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Golli

Kauphallarhermir virðist ætla að verða lykilorðið á fyrsta degi aðalmeðferðar í máli sérstaks saksóknara gegn fyrrverandi bankastjóra og þremur starfsmönnum Landsbankans. Þykir hann ekki aðeins óskiljanlegur heldur mun skýrslutaka yfir sakborningum aðallega fara fram í honum, ef fer sem horfir.

Í málinu eru ákærðir Sigurjón Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, Ívar Guðjónsson, fyrrverandi forstöðumaður eigin fjárfestinga bankans, og tveir fyrrverandi starfsmenn sömu deildar, Sindri Sveinsson og Júlíus S. Heiðarsson. 

Mennirnir eru ákærðir fyrir markaðsmisnotkun með því að tryggja „óeðli­legt verð“ á hluta­bréf­um í bank­an­um á tíma­bil­inu frá 1. nóv­em­ber 2007 til og með 3. októ­ber 2008. Hafi það verið gert með kaup­um á bréf­um í bank­an­um sem „voru lík­leg til að gefa eft­ir­spurn og verð hluta­bréf­anna rang­lega og mis­vís­andi til kynna,“ eins og segir í ákæru.

Aðalmeðferð hófst í morgun með skýrslutöku yfir Júlíusi. Hann hóf daginn á því að lesa upp bókun en í henni kom fram að hann teldi sérstakan saksóknara ekki gera neina tilraun til að setja viðskipti bankans í eðlilegt samhengi, miðað við þær upplýsingar sem lágu fyrir á hverjum tíma.

„Ég vann starf mitt heiðarlega og eftir bestu samvisku,“ sagði Júlíus og gerði athugasemd við að saksóknari hafi valið sér eitthvað tiltekið tímabil sem ákært sé fyrir, alls 228 viðskiptadagar. Hann hafi starfað í bankanum frá 2003 og í engu hafi starf hans breyst þann 1. nóvember 2007. Engin skýring sé gefin á því hvers vegna miðað sé við þá dagsetningu. „Saksóknari hefur enga tilraun gert til að skýra hvernig vinna mín fyrir bankann á að hafa breyst 1. nóvember 2007 eða hvernig hún hafi þá orðið að markaðsmisnotkun.“

Hann kvaðst á öllum sínum árum í starfi ekki hafa fengið neinar athugasemdir og að hann hafi aldrei tekið þátt í að tryggja óeðlilegt verð á hlutabréfum eða gefa eftirspurn eftir þeim ranglega til kynna. Og að hann hafi aldrei verið beðinn um að gera það.

Sýnikennsla fyrir framsetningu

Málið er nokkuð flókið en það varð mun flóknara þegar saksóknari dró upp úr hatti sínum nefndan kauphallarhermi. Fyrir það fyrsta sagði Júlíus að saksóknari gæti vart spurt út í þau gögn sem koma fram í herminum þar sem meirihluta þeirra viðskipta sem fóru fram á einstökum dögum umrædds tímabils sé sleppt. Aðeins sé horft til sjálfvirkra pörunarviðskipta sem gefi alls ekki rétta mynd af viðskiptum hvers dags og sé framsetningin villandi.

Framsetningin er í raun svo villandi að það þurfti sýnikennslu frá aðstoðarmanni saksóknara til þess að sakborninga, verjendur þeirra og dómarar skildu yfirleitt hvað þeir væru að horfa á. „Þetta er bara óskiljanlegt, það er vandamálið,“ sagði Sigurður G. Guðjónsson, verjandi Sigurjóns, meðal annars í umræðum um kauphallarherminn. Sigurjón sjálfur klóraði sér í kollinum og bætti við: „Sumt eru línur og sumt þríhyrningar.“

Þar sem heilu dögunum á tímabilinu er rennt í gegnum kauphallarherminn en ekki spurt út í myndir af lokastöðu hvers dags, eins og eru í gögnum málsins í pappírsformi, spurði Jóhannes Rúnar Jóhannsson, verjandi Ívars: „Bíddu, þannig að pappírsgögnin eru gölluð?“ Og Sigurður spurði í kjölfarið: „Verðið þið ekki bara að fara heim og koma með eitthvað betra?“

Heimaverkefni í hádegishléi

Þegar svo saksóknari hóf að spyrja Júlíus út í hvern einasta dag á tímabilinu, eða þessa 15 af 228 sem tókst fyrir hádegi, fóru dómarar að ókyrrast. Verjendur halda því fram að það verði að spyrja út í einstök viðskipti sem fóru fram á hverjum degi enda sé ákært fyrir alla 228 dagana. Þegar saksóknari reyndi að stytta sér leið fékk hann um leið þá spurningu hvort fallið væri þá frá ákæru á tiltekna daga.

Þegar kom að hádegishléi bað dómsformaður verjendur og saksóknara vinsamlegast um að koma með lausn á málinu eftir hlé enda ljóst að það mun taka fram að helgi að spyrja Júlíus áfram eins og byrjað var á í morgun. „Þið hafið þetta heimaverkefni,“ sagði Ragnheiður Harðardóttir dómsformaður og hélt í hádegismat.

En aðalmeðferðin heldur áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert