Tækniháskóli Kaliforníu talinn bestur

mbl.is/Sigurður Bogi

Háskóli Íslands er eini hérlendi háskólinn sem kemst á blað yfir 400 bestu háskóla heimsins samkvæmt nýrri úttekt Times Higher Education en skólinn vermir 251.-275. sæti. Besti háskóli heimsins samkvæmt úttektinni er Tækniháskóli Kaliforníu (California Institute of Technology) í Bandaríkjunum en hann var einnig í því sæti á síðasta ári. Harvard-háskóli í Bandaríkjunum vermir annað sætið og Oxford-háskóli í Bretlandi er í því þriðja. Staða þeirra er einnig óbreytt á milli ára.

Sjö af tíu efstu háskólunum eru bandarískir en þrír breskir. Stanford-háskóli í Bandaríkjunum er í fjórða sæti, Cambridge-háskóli í Bretlandi í því fimmta og Massachusetts Institute of Technology í Bandaríkjunum í sjötta sæti. Princeton-háskóli er í sjöunda sæti, Háskólinn í Kaliforníu Berkeley í því áttunda og Imperial College London í Bretlandi og Yale-háskóli í Bandaríkjunum deila með sér tíunda sætinu.

Fyrsti háskólinn á listanum utan Bandaríkjanna og Bretlands er Tækniháskólinn í Zürich í Sviss en hann er í 13. sæti. Næsti háskóli utan þessara tveggja landa er Háskólinn í Toronto í Kanada sem vermir 20. sætið. Háskólinn í Tókíó í Japan er síðan í 23. sæti, Háskólinn í Singapúr í 26. sæti og Ludwig-Maximilians-háskólinn í München í Þýskalandi í 29. sæti en staða síðastnefnda háskólans breytist mikið á milli ára en á síðasta ári var hann í 55. sæti. 

Leiðandi asískir háskólar í mikilli sókn

Fram kemur í greinargerð með listanum að leiðandi asískir háskólar séu í mikilli sókn líkt og áður. Þannig séu 24 asískir háskólar á meðal 200 bestu skólanna en þeir hafi verið 20 á síðasta ári. Staða Japans sé sérstaklega sterk. Þrátt fyrir fjölda breskra og bandarískra háskóla á listanum kemur fram að ýmsir þarlendir skólar lækki á listanum. Samtals séu háskólar frá 28 ríkjum á listanum miðað við 26 á síðasta ári.

Ennfremur segir að nokkur ríki eigi ekki háskóla á meðal 200 bestu skólanna en séu hins vegar á lista yfir þá 200-400 bestu. Þar á meðal sé Brasilía, Chile, Kólumbía, Tékkland, Indland, Ísland, Portúgal og Pólland. Haft er eftir Phil Baty, ritstjóra úttektarinnar, að það sé ánægjulegt að sjá Ísland halda stöðu sinni á listanum yfir bestu háskóla heimsins. Ekki síst í ljósi vaxandi samkeppni frá skólum í Suðaustur-Asíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert