„Þetta leggst mjög vel í mig“

Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, og eiginkona hans Inga Jóna …
Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, og eiginkona hans Inga Jóna Þórðardóttir. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þetta leggst mjög vel í mig. Ég þekki vel til í Bandaríkjunum og bjó þar sem námsmaður í mörg ár og þar á meðal í tvö ár í Washington. Þetta er mjög spennandi verkefni og auðvitað heilmargt að gera í þessu starfi enda mikilvægt að halda uppi öflugri hagsmunagæslu gagnvart Bandaríkjunum sem eru okkar mikilvægasta vinaríki.“

Þetta segir Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, í samtali við mbl.is en hann tekur um næstu áramót við embætti sendiherra Íslands í Bandaríkjunum með aðsetur í Washington. „Verkefnin eru auðvitað fjölbreytt. Þau tengjast stjórnmálatengslum og varnarmálum, viðskiptum, mennta- og menningarmálum og ýmsum fleiru.“ Stefna núverandi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins gengur meðal annars út á að efla tengslin við Bandaríkin og segir Geir aðspurður sammála því að rík ástæða sé til þess.

„Ég hef frá því að ég var í námi þarna fyrir löngu síðan haldið tengslum við marga. Bæði fólk sem er enn starfandi í stjórnsýslunni, í háskólum og viðskiptalífinu og slík sambönd geta komið sér vel í þessu starfi. Þarna er um að ræða tengsl sem hafa byggst upp á löngum tíma,“ segir Geir.

Aðspurður segir hann erfitt að nefna eitthvað ákveðið mikilvægt verkefni umfram önnur á þessum tímapunti. Verkefnin séu fjölbreytt og gangi ekki síst út á það að greiða og liðka fyrir samskiptum á öllum mögulegum sviðum. Bæði í tilfelli einstaklinga, félagasamtaka og fyrirtækja. 

„Þetta verður auðvitað skemmtilegt verkefni. Við hlökkum til að takast á við þetta við hjónin. Við förum saman í þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert