Nú er spáð kólnandi veðri víða um land með frosti og því má gera ráð fyrir að hálka myndist á vegum. Samgöngustofa vill hvetja ökumenn til að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja það að hjólbarðar séu í sem bestu ástandi og hæfi væntanlegri vetrarfærð.
Það getur borgað sig að koma við á hjólbarðaverkstæði til að láta gera úttekt á ástandi hjólbarðanna og sjá til þess að þessi litli flötur á hjólbarðanum sem snertir veginn hafi gott og öruggt veggrip.
Hér má sjá ganglegar myndir þar sem fjallað er um hvernig bera má kennsl á hálku og umfjöllun um helstu tegundir og einkenni hálku.
Hvenær má aka á nagladekkjum?
1. nóvember til 14. apríl ár hvert. Af því leiðir að nagladekk eru bönnuð frá 15. apríl til 31. október. Aðrar gerðir dekkja er einnig gott að nota í vetrarfærð. Engin tímamörk eru á því hvenær setja má vetrardekk, heilsársdekk eða harðkornadekk undir bílinn.