Forystusauðurinn Gorbatsjoff í sinni hinstu ferð

Forystusauðurinn Gorbatsjoff er nú á ferðalagi um landið ásamt meðlimum í Hrútavinafélaginu Örvari sem lýkur á Hrútadeginum mikla sem haldinn verður á Raufarhöfn á laugardaginn. Anton Vasiliev, nýskipaður sendiherra Rússlands, heilsaði upp á Hrútavinina með Guðna Ágústsson í broddi fylkingar í Bændahöllinni í morgun þegar hópurinn lagði úr vör.

Guðni lagði mikla áherslu á hversu mikill virðingarvottur það væri að skíra forystuhrúta í höfuð á leiðtoga Sovétríkjanna sálugu en bróðir Gorbatsjoffs eða Gorba, var nefndur í höfuðið á öðrum rússneskum leiðtoga, Boris Jeltsín, og það var ekki annað að sjá en Vasiliev kynni vel að meta gjörninginn.

Markmið ferðarinnar er að efna til umræðu um sauðkindina og yfirburða vitsmuni forystufjár en komið verður við á fjölmörgum stöðum: Hvanneyri, Bifröst, Staðarskála í Hrútafirði, Hvammstanga, Blönduósi, Sauðárkróki, Hólum í Hjaltadal, Hofi á Akureyri, Laufási, Húsavík, Kópaskeri, Raufarhöfn og Svalbarði í Þistilfirði og víðar.

Gorbatsjoff, sem var í eigu Guðna og er uppstoppaður, mun svo í lok ferðar taka sér stöðu á forystufjársafninu á Svalbarði í Þistilfirði þar sem hann mun dvelja framvegis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert