Hætt hefur verið við þemadag sem halda átti í Melaskóla í Reykjavík á morgun. Í tilkynningu frá skólanum til foreldra nemendanna kom fram að í tilefni dagsins mættu strákar vera eins og stelpur og stelpur mættu vera eins og strákar.
Sóley Tómasdóttir, forseti borgarstjórnar, vakti athygli á þessu á Facebook-síðu sinni í morgun. Þar velti hún fyrir sér hvernig strákar og stelpur væru, hvaða forsendur Melaskóli gæfi sér og hvað börnunum hefði verið kennt um kynhlutverk.
„Er þetta stranglega bannað aðra daga og hvernig er fylgst með því því að kynin hegði sér samkvæmt skólareglum,“ spurði Sóley sem sendi skólastjóranum fyrirspurn vegna málsins.
Henni barst svar skömmu síðar þar sem kom fram að dagurinn hefði verið vanhugsaður og hefur frétt um daginn nú verið tekin úr af heimasíðu skólans. „Þau ætla að finna aðra leið til að gera sér glaðan dag í skólanum,“ hafði Sóley að lokum eftir skólastjóranum.