Sat eftir með aðeins 72 krónur

Mynttalningarvél í Arion banka
Mynttalningarvél í Arion banka mbl.is/Árni Sæberg

Herdísi Herbertsdóttur brá í brún þegar hún fór með 1.062 kr. af silfraðri mynt í sjálfsafgreiðslutalningavél sem tekur við smámynt í Arion banka í Kringlunni. Henni til undrunar tók bankinn 990. kr fyrir veitta þjónustu og sat hún eftir með 72 krónur eftir að hún hafði notað vélina. Merkingar eru við hlið vélarinnar þar sem skýrt er frá því að tekið er gjald fyrir þjónustuna frá þeim sem ekki eru í viðskiptum við bankann. Ekki er tekið gjald af viðskiptamönnum hans.

Tók hún ekki eftir þeirri merkingu en þessar upplýsingar voru að hennar sögn ekki í tölvukerfi eða á vélinni sjálfri. „Ég hefði kannski getað kynnt mér þetta betur og ég hélt kannski að ég myndi þurfa að borga eitthvað smá. En það hvarflaði ekki að mér að þetta væri svona hátt verð,“ segir Herdís.

Fær allt fyrir enga vinnu

Tekin eru 3% af myntupphæðinni í Landsbankanum og hefði Herdís því greitt 32 krónur fyrir þjónustuna þar. Ekkert gjald er tekið fyrir notkun á sjálfsafgreiðslutalningavélum í Íslandsbanka óháð því hvort viðkomandi eigi í viðskiptum við bankann.

Samkvæmt upplýsingum úr Arion banka var gjaldið sett á áður en sjálfsafgreiðslutalningavélar voru settar upp.

„Það var ekki fyrr en ég fór til gjaldkera sem ég sá að lágmarksgjald er 990 krónur. Ég sagði við gjaldkera að mér þætti þetta hryllilega ósanngjarnt og hún bauð mér kurteislega að leggja fram kvörtun. Ég sagði einnig við hana að ég skildi ekki af hverju ég ætti ekkert að fá en bankinn allt fyrir enga vinnu. Gjaldkerinn sýndi því skilning og var kurteis. Svo gekk ég út með mínar 72 krónur og bankinn fékk rest,“ segir Herdís sem lagði fram kvörtun. Hún telur þessa gjaldtöku siðlausa. „Fyrstu sex mánuðina fékk bankinn 17,4 milljarða króna í hagnað, m.a. með því að blóðmjólka okkur. Það er álíka mikið og kostnaðurinn við að greiða öllum starfsmönnum Landspítalans laun,“ segir Herdís.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert