Búast má við því að gas frá eldgosinu í Holuhrauni færist yfir norðanvert landið frá austri til vesturs undan suðaustanátt í dag, samkvæmt spá Veðurstofunnar. Háir toppar í styrk brennisteinstvíildis í andrúmslofti mældust á Austurlandi í gær.
Gasið lagði í fyrstu norður af Holuhrauni í gær en svo dreifðist það í austurátt. Almannavörnum bárust tilkynningar um há gildi á Breiðdalsvík, Djúpavogi og Fáskrúðsfirði, allt að 2.400 míkrógrömm á rúmmetra. Fólk hafði þá fundið fyrir ertingu í augum og öndunarfærum.
Brennisteinsgasið setti daglegt líf að einhverju leyti úr skorðum. Í leikskólanum Ástúni á Breiðdalsvík voru börnin látin dvelja innandyra eftir að gasið var orðið sýnilegt á svæðinu. Þetta er í annað skipti sem leikskólabörnum þar er haldið inni frá því að eldgosið hófst í lok ágúst.