Finnst gaman að fá myndir af sér í fjölmiðlum

Bjarni Benediktsson og Halldór Halldórsson ræddu málin á fjármálaráðstefnu Sambands …
Bjarni Benediktsson og Halldór Halldórsson ræddu málin á fjármálaráðstefnu Sambands sveitarfélaga í dag. Af vef Sambands sveitarfélaga

Í samræðum Halldórs Halldórssonar formanns Sambands sveitarfélaga og Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra á Fjármálaráðstefnu sambandsins í dag var tekist nokkuð á um samskipti ríkisins og sveitarfélaganna. Það var Jóhann Hlíðar Harðarson fréttamaður sem stjórnaði viðræðunum.

Sveitarfélögin kvarta undan því að ríkið virði ekki gerða samninga heldur lækki einhliða umsamin útgjöld og skilji sveitarfélögin eftir í vanda. „Ég veit að ráðherrum finnst fátt skemmtilegra en að skrifa undir samninga og fá myndir af sér í fjölmiðlum en fyrir okkur væri mun betra að fækka slíkum undirskriftum en standa hins vegar við það sem skrifað er undir,“ sagði Halldór.

Fjármálaráðherra sagði að ríkið yrði að hafa svigrúm til að taka til í rekstrinum. Almennt væru menn sammála um að þjónustan eigi að vera sem næst þeim sem hún er ætluð. Það feli hins vegar í sér aukinn þrýsting frá notendum sem sveitarfélögin eigi oft erfitt að standast og þá sé þjónustustigið gjarnan aukið. Síðan komi menn til ríkisins og kvarta undan því að ekki hafi verið tryggt nægjanlegt fé til verkefnisins. Halldór Halldórsson lagði til að næst þegar verkefni verða færð frá ríkinu til sveitarfélaganna verði fyrst gengið frá laga- og kostnaðarramma og ríkinu gert að reka málaflokkinn samkvæmt honum í tiltekinn tíma áður en verkefnið færist til sveitarfélaganna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka