Getur ekki verið allt fyrir alla

„Það þarf pólitískt þor og kjark þess að taka á þessu máli,“ sagði Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, á Alþingi í dag þar sem hann gerði að umtalsefni sínu fjárhagslega stöðu Ríkisútvarpsins sem hann sagði í raun gjaldþrota. Félagið gæti ekki staðið í skilum með afborganir lána, vandanum hafi verið velt á undan sér, lán tekin til þess að brúa fjárþörf og bankar verið viljugir til að lána í þeirri trú að ríkið myndi alltaf koma til aðstoðar.

„Það er löngu orðið tímabært að endurskoða allt sem varðar opinber hlutafélög,“ sagði Karl. Rifjaði hann upp að fyrir ári hefði hann staðið í ræðustól Alþingis og lýst eftir umræðu um framtíð Ríkisútvarpsins. Lítið hefði gerst í framhaldinu. „Það er alveg kristaltært að ríkið er ekki aflögufært með meira fjármagn, auglýsingatekjur RÚV eru að dragast saman, kostnaður við dagskrárgerð eykst, aðhaldsaðgerðir hafa ekki skilað árangri, kröfur um aukna þjónustu eru ætíð fyrir hendi og það að hætta við síðasta lag fyrir fréttir veldur fjöldamótmælum.“

Karl sagði að Ríkisútvarpið gæti ekki lengur verið allt fyrir alla. Ekki gengi lengur upp að gera öllum til hæfis allan sólarhringinn. Félagið mætti ekki lengur vera pólitískt rekald í ands Landbúnaðarháskólans. Þrír möguleikar væru í stöðunni: Að setja aukið fjármagn í Ríkisútvarpið, breyta lögum og aflétta ýmsum skyldum sem hvíldu á félaginu „eða krefjast hreinlega róttækra rekstrarbreytinga innanhúss sem geta falið í sér styttri dagskrá, breyttar áherslur í efnisvali og hugsanlega fækkun rása.“

Þingmaðurinn sagði að svara þyrfti áleitnum spurningum í þessum efnum. „Erum við tilbúin að setja tæpar 900 milljónir króna á ári í fréttaþjónustu RÚV, 300 milljónir í Rás 1, 200 milljónir í Rás 2 og 1,3 milljarða í annað sjónvarpsefni en fréttir? Og gera menn sér grein fyrir því að uppsöfnuð fjárfestingaþörf RÚV nemur 1,5 milljarði króna á næstu fjórum árum.“ Þegar Karl sté úr pontu heyrðist kallað úr þingsalnum: „Áfram RÚV.“

Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert