Skrifaði bókina á örfáum mánuðum

Guðni Líndal Benediktsson, ofurhetja, rithöfundar og kvikmyndagerðarmaður, er ánægður með …
Guðni Líndal Benediktsson, ofurhetja, rithöfundar og kvikmyndagerðarmaður, er ánægður með árangurinn. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Guðni Líndal Benediktsson, höfundur bókarinnar Ótrúleg ævintýri afa - Leitin að Blóðey, skrifaði stóran hluta bókarinnar á þremur mánuðum svo hann gæti skilað handritinu í samkeppnina um Íslensku barnabókaverðlaunin í tæka tíð.

Bókin hlaut verðlaunin í ár og er hún tuttugasta og níunda bókin til að hljóta verðlaunin sem hafa verið veitt frá árinu 1986.

Sögurnar fylgdu engum reglum

 „Ég byrjaði að skrifa bókina fyrir tveimur árum og vann að henni með hléum,“ segir Guðni í samtali við mbl.is. Hann segist hafa nýtt sér innblástur frá föður sínum sem hafi verið mjög góður að segja þeim systkinum sögur áður en þau fóru að sofa á kvöldin. „Sögurnar hans fylgdu engum reglum, hann fór út um allt og sótti innblástur í sitt nánast umhverfi.“

Í sögunni er sagt frá afa sem situr að sögn Guðna undir sífelldu eftirliti frá barnabarni sínu þegar hann reynir að svæfa drenginn á kvöldin. 

Drengurinn hlustar, spyr og gerir athugasemdir og hagar afinn sögunni eftir því. Þeir gera samkomulag um að strákurinn hætti að vera í fýlu ef afinn segir sögu af sjálfum sér, þegar hann fór að finna ömmu sem rænt var af seiðkarli.

Beið eftir því að vaxa upp úr fantasíunum

Þegar blaðamaður leitaði að símanúmeri Guðna á ja.is koma í ljós að hann er skráður ofurhetja. Hann segir það þó ekki tengjast skrifum bókarinnar.

„Ég hafði þó klárlega áhuga á svona sögum þegar ég var ungur. Ég beið eftir því að vaxa upp úr fantasíum og áhuga á skrímslum en það hefur ekki gerst enn,“ segir Guðni.

Guðni hafði lokið við einn þriðja hluta bókarinnar í fyrra þegar í ljós kom að verðlaun fyrir árið 2013 yrðu ekki veitt. Hann ákvað að taka þátt í ár þar sem hann sá fram að það væri sniðugasta leiðin til að koma út fyrstu bókinni. Frestur til að skila inn handriti í keppnina var til 1. febrúar á þessu ári.

Þurfti að skrifa mikið og hratt á stuttum tíma

„Ég þurfti því að hafa hraðan á og skrifa hratt og mikið til að ljúka á réttum tíma,“ segir Guðni sem skilaði handritinu sama dag og skilafresturinn rann út. Hann segir það í raun hafa verið lyginni líkast en hann skrifaði stóran hluta handritsins á þremur mánuðum.

Áður hefur Guðni fengist við skrif á stuttmyndum og kvikmyndum og segir hann bókaskrifin dálítið frábrugðin því. „Þar stendur allt og fellur með því að koma þessu frá sér,“ segir Guðni.

Hann lagði stund á nám við Kvikmyndaskóla Íslands og segir sinn stærsta árangur hingað til á því sviði vera stuttmyndina No Homo sem hann samdi og leikstýrði, en myndin hlaut verðlaun á stuttmyndahátíðinni Reykjavík Shorts and Docs. 

Þegar Guðni hafði lokið við handritið lásu tveir vinir hans og bróðir það yfir og segist hann hafa tekið ábendingar þeirra til greina. „Ég saltaði handritið síðan í mánuð áður en ég leit á það aftur.“

Krafðist þess að fá að hafa myndir

Ítalinn Ivan Cappelli teiknaði myndirnar í bókinni og segir Guðni að þær færi bókina upp á annað stig. Hingað til hefur ekki tíðkast að verðlaunabókin sé myndskreytt en höfundurinn segir að hann hafi lagt mikla áherslu á að fá að hafa myndir, það hafi skipt verulega miklu máli.

„Frásögnin er mjög myndræn, skrímsli og furðuverur. Í hverjum kafla er nýtt kvikindi og þá er spennandi að sjá hvað kemur næst,“ segir Guðni.

En hvað tekur við, er Guðni með aðra bók í smíðum?

„Ef þessi rúllar vel væri frábært að skrifa og gefa út framhald,“ segir Guðni og segist þegar vera kominn langt með að leggja línurnar fyrir næstu bók. „Ég hef fulla trú á að þessari muni ganga vel.“

Bókin er þegar komin í verslanir. 

Ótrúleg ævintýri með afa - Leitin að Blóðey.
Ótrúleg ævintýri með afa - Leitin að Blóðey. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert