Hvessir til muna norðaustan- og austanlands

Svona er umhorfs á Mývatnsheiði þessa stundina.
Svona er umhorfs á Mývatnsheiði þessa stundina. mynd/Vegagerðin

Almennt frystir á landinu í nótt, einnig sunnantil. Austanlands rofar til í kvöld eftir snjókomu þar í dag, en áfram verður ofankoma á Norðurlandi til morguns og él á Vestfjörðum. Hvessir til muna norðaustan- og austanlands í kvöld og reiknað er með veðurhæð af norðvestri, 20-25 metrar á sekúndu.

Skafrenningur eystra þar sem nýr snjór er fyrir, takmarkað skyggni og staðbundið snarpar vindhviður á Austfjörðum allt að 30-35 m/s. Lægir ekki að gagni fyrr um og eftir miðjan dag á morgun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni

Færð

Það eru hálkublettir og skafrenningur á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum og eins víða á Suðurlandi, jafnvel krap eða snjóþekja í uppsveitum.

Hálkublettir eru á Mýrum og Vatnaleið en hálka á Fróðárheiði, Bröttubrekku og Holtavörðuheiði, einnig er skafrenningur á Fróðárheiði. Eins eru sumstaðar hálkublettir í Dölum. Það éljar á Vestfjörðum og sumstaðar er skafrenningur. Hrafnseyrarheiði er þungfær og þæfingsfærð er á Dynjandisheiði. Annars er snjóþekja, krap eða nokkur hálka allvíða á Vestfjörðum og Ströndum.

Hálka, hálkublettir og skafrenningur er víða á Norðurlandi vestra sem og í Mývatnssveit en hálka, krapi og éljagangur er á Mývatns- og Möðrudalsöræfum.

Það snjóar á Austurlandi og víða er snjóþekja, krapi eða hálka, einkum á fjallvegum. Þæfingsfærð er á Breiðdalsheiði en Öxi er ófær.

Nánar hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert