Leynd verði aflétt af yfirliti Orku náttúrunnar

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Ómar

Stjórnkerfis- og lýðræðisráð Reykjavíkurborgar beinir þeim tilmælum til stjórna Orkuveitu Reykjavíkur og Orku náttúrunnar um að leynd verði aflétt af yfirliti um framleiðslu virkjana Orku náttúrunnar á tímabilinu maí 2013 – maí 2014 vísað til borgarráðs.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Halldóri Auðar Svanssyni, formanni stjórnkerfis- og lýðræðisráðs Reykjavíkurborgar. 

Fram kemur að tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í ráðinu hafi verið verið tekin til afgreiðslu í ráðinu. Tillaga sjálfstæðismanna er svohljóðandi:

„Stjórnkerfis- og lýðræðisráð beinir þeim tilmælum til stjórna Orkuveitu Reykjavíkur og Orku náttúrunnar að séð verði til þess að leynd verði aflétt af yfirliti um framleiðslu virkjana síðarnefnda fyrirtækisins á tímabilinu maí 2013 - maí 2014. Mikilvægt er að almenningur fái upplýsingar um umrædda framleiðslu á nefndu tímabili, ekki síst í ljósi þess að í maí 2013 fóru fram miklar umræður á opinberum vettvangi um afköst Hellisheiðarvirkjunar og við það tækifæri voru lagðar fram ítarlegar upplýsingar um framleiðslu hennar.“

Sökuðu meirihlutann um leyndarhyggju

Meirihluti ráðsins ákvað að vísa tillögunni til meðferðar í borgarráði. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi Framsóknar- og flugvallarvina sátu hjá við þá afgreiðslu. Fulltrúar meirihlutans lögðu fram svohljóðandi bókun:

„Samkvæmt gildandi samþykkt fyrir stjórnkerfis- og lýðræðisráð frá 2. september 2014 er verksvið ráðsins bundið við stjórnkerfi og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar og nær af þeim sökum ekki til félaga og fyrirtækja í eigu Reykjavíkurborgar. Þá hafa eigendur Orkuveitu Reykjavíkur í sameignarsamningi og eigendastefnu komið því svo fyrir að beiðnum um upplýsingar frá Orkuveitu Reykjavíkur skal komið á framfæri á vettvangi byggðaráða og beint af byggðaráðum til stjórnar eða eftir atvikum forstjóra. Af þeim sökum er framkominni tillögu um að beint verði þeim tilmælum til stjórna Orkuveitu Reykjavíkur og Orku náttúrunnar um að leynd verði aflétt af yfirliti um framleiðslu virkjana Orku náttúrunnar á tímabilinu maí 2013 – maí 2014 vísað til borgarráðs. Stjórnkerfis- og lýðræðisráð beinir því einnig til borgarráðs að tryggt verði að uppskipting Orkuveitu Reykjavíkur leiði ekki til minna gagnsæis og upplýsingagjafar til borgarstjórnar og borgarbúa en til staðar var fyrir þá breytingu á rekstrarformi fyrirtækisins.“

Fulltrúar minnihlutans lögðu þá fram eftirfarandi bókun:

„Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins og flugvallarvina undrast að fulltrúar Pírata, Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, og Vinstri grænna í stjórnkerfis- og lýðræðisráði skuli kjósa að vísa tillögu Sjálfstæðisflokksins um aukið gagnsæi varðandi framleiðslu virkjana Orkuveitu Reykjavíkur til borgarráðs. Er slæmt til þess að vita að eitt fyrsta verk meirihlutans í ráðinu skuli nú vera að styðja aukna leyndarhyggju í málefnum Orkuveitu Reykjavíkur, sem kemur fram í því að enn hefur ekki verið orðið við óskum um að veita almenningi og fjölmiðlum upplýsingar um framleiðslu virkjana fyrirtækisins á tímabilinu maí 2013 – maí 2014. Mikilvægt er að almenningur og fjölmiðlar fái upplýsingar um umrædda framleiðslu á nefndu tímabili, ekki síst í ljósi þess að í maí 2013 fóru fram miklar umræður á opinberum vettvangi um afköst Hellisheiðarvirkjunar og við það tækifæri voru lagðar fram ýtarlegar upplýsingar um framleiðslu hennar. 

Með fyrirliggjandi tillögu Sjálfstæðisflokksins er ekki verið að leggja til að stjórnkerfis- og lýðræðisráð fái afhentar umræddar upplýsingar heldur að ráðið hvetji til þess að þær verði birtar. Stjórnkerfis- og lýðræðisráði er ráðgefandi gagnvart borgarráði og borgarstjórn og er því fullkomlega heimilt að hafa skoðun á því hvernig upplýsingagjöf er háttað hjá Reykjavíkurborg og fyrirtækjum hennar. Við stofnun stjórnkerfis- og lýðræðisráðs var haldið uppi af hálfu borgarstjórnarmeirihlutans að ráðið skyldi gegna mikilvægu hlutverki við að auka gagnsæi í öllum rekstri Reykjavíkurborgar og stinga á kýlum þegar á þyrfti að halda og er sú stefnumörkun skýr í samþykktum ráðsins. Því veldur höfnun meirihlutans á því að réttast væri að birta umræddar upplýsingar miklum vonbrigðum og gefur því miður vísbendingar um að gefin fyrirheit við stofnun ráðsins voru meira í orði en á borði.“

Ekki verið að hafna einu né neinu

Gagnbókun kom þá frá fulltrúum meirihlutans:

„Meirihluti stjórnkerfis- og lýðræðisráðs hafnar þeirri staðhæfingu að í því að vísa til borgarráðs tillögu stjórnkerfis- og lýðræðisráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um afléttingu leyndar á yfirliti um framleiðslu virkjana Orku náttúrunnar maí 2013 - maí 2014 felist einhvers konar höfnun á því að réttast væri að birta umbeðnar upplýsingar eða að meirihluti ráðsins víki sér undan því að hafa skoðun á málinu. Skoðunin kemur skýrt fram í þeirri bókun sem fylgir ákvörðuninni, í þessum orðum: Meirihluti stjórnkerfis- og lýðræðisráðs beinir því einnig til borgarráðs að tryggt verði að uppskipting Orkuveitu Reykjavíkur leiði ekki til minna gagnsæis og upplýsingagjafar til borgarstjórnar og borgarbúa en til staðar var fyrir þá breytingu á rekstrarformi fyrirtækisins. Sambærilegar umbeðnar upplýsingar hafa verið veittar áður og það er ósk og von meirihluta ráðsins að borgarráð muni tryggja samfellu á því. Mikilvægt er þó að gæta að því hvert formlegt verksvið stjórnkerfis- og lýðræðisráðs er samkvæmt samþykkt um það og því er formsins vegna réttast að vísa tillögunni sem slíkri til meðferðar hjá borgarráði. Meirihlutinn áskilur sér fullan rétt til að fylgjast með framvindu málsins og fylgja því frekar eftir, gerist þess þörf.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert