Lognið á undan storminum

Þessi mynd var tekin á Ísafirði í byrjun október. Það …
Þessi mynd var tekin á Ísafirði í byrjun október. Það má búast við því að skyggnið verði ekki svona gott þegar líður á daginn. BB.is/Sigurjón J. Sigurðsson

Veðrið er ekki farið að versna á Vestfjörðum en íbúar þar mega eiga von á að það fari að versna undir hádegi. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Ísafirði er þar lítilsháttar súld og ágætt veður, lognið á undan storminum. Afar slæm veðurspá er fyrir daginn í dag og á morgun, einkum fyrir norðan.

Viðvörun frá Veðurstofu Íslands:

Ferðalög milli landshluta geta orðið erfið í dag og á morgun, einkum á norðurhelmingi landsins. Þetta á einkum við bíla sem eru vanbúnir til vetraraksturs.

Veðurspá fyrir næsta sólarhringinn:

Vaxandi norðanátt, hvassviðri eða stormur (15-23 m/s) um mestallt land í dag, fyrst NV-til, en dreifir úr sér til austurs þegar líður á daginn og hvassviðri eða stormur A- og S-lands í kvöld. Snjókoma á N-verðu landinu og talsverð rigning eða slydda SA- og A-til framan af degi, en smáél fyrir sunnan. Kólnandi veður, frost víða 0 til 5 stig síðdegis, en frostlaust með S-ströndinni. Hvassviðri eða stormur á austanverðu landinu á morgun, en hægviðri V-til. Snjókoma fyrir norðan, en bjart með köflum S- og V-lands. Hiti víða í kringum frostmark.

Á þriðjudag:
Norðvestan 13-23 m/s, hvassast NA-til. Snjókoma um landið N-vert, en úrkomulaust syðra. Talsvert hægari vindur V-lands og bjart með köflum. Frost víða 0 til 4 stig.

Á miðvikudag:
Gengur í austan 5-13 m/s, hvassast með S-ströndinni, en áfram norðvestlæg átt NA-til og stöku él. Rigning eða slydda S-til, annars að mestu þurrt. Hiti kringum frostmark á S-verðu landinu, en allt að 5 stiga hiti með ströndinni. Frost 0 til 8 stig N-til, kaldast í innsveitum.

Á fimmtudag:
Norðaustlæg eða breytileg átt 3-10 m/s. Él fyrir norðan og austan, en bjart með köflum V-til, annars úrkomulítið. Hiti 0 til 5 stig S-lands, en frost 0 til 5 stig fyrir norðan.

Á föstudag:
Fremur hæg breytileg átt. Dálítil él eða skúrir á víð og dreif. Svalt í veðri.

Á laugardag:
Suðvestlæg átt 3-10 m/s, og él eða slydduél um allt land. Kólnar í veðri, víða frost 0 til 6 stig.

Á sunnudag:
Útlit fyrir norðlæga átt með éljum fyrir norðan, en þurrt og bjart í veðri S-til. Hiti breytist lítið.

Ísfirðingar eru ýmsu vanir þegar kemur að vetrarveðri og láta …
Ísfirðingar eru ýmsu vanir þegar kemur að vetrarveðri og láta ekki spár um óveður trufla sig enda allra veðra von þar á vetrarlagi. mbl.is/Bæjarins Besta
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert