Reykjavík tekur vel á móti hinsegin fólki

mbl.is/Ómar

Reykjavíkurborg er í 9. sæti á lista yfir þær borgir í heiminum sem þykja taka best á móti hinsegin fólki (e. gay-friendly) í nýútkominni úttekt Lonely Planet. Listinn birtist á vef The Independent í dag, en mun birtast í heild í bókinni Best in Travel 2015 sem kemur út á morgun. 

Í lýsingu um Reykjavík kemur fram að borgin sé ein af vinalegustu borgum heims. Þar segir að árið 2015 muni Reykjavík halda Hinsegin daga hátíðlega í 17. skipti, en Gleðigangan er ein sú elsta sinnar tegundar í Evrópu. Þá muni hátíðin Bears on Ice vera haldin í 11. skipti.

Í lýsingunni kemur jafnframt fram að Ísland sé draumastaður ævintýramannsins. Þá sé landið með ein framsæknustu lög heims, en árið 2006 var samkynhneigðum pörum veitt jafnrétti á við gagnkynhneigð pör án nokkurra takmarkanna.

Kaupmannahöfn trónir á toppi listans, en borgin þykir hafa gott framboð „gay-friendly“ gistingar og skemmtistaða, og þykir öll dagskrá sem miðuð er að hinsegin fólki til fyrirmyndar. Nýja Sjáland fylgir fast á eftir Kaupmannahöfn, og í þriðja sæti listans er Toronto í Kanada.

mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert