Rúta fauk út af veginum

hálka og skafrenningur á Hellisheiði. Myndin er úr safni.
hálka og skafrenningur á Hellisheiði. Myndin er úr safni. mbl.is/Golli

Björgunarsveitir hafa verið kallaðar út á Hellisheiði eftir að flutningabifreið fór út af veginum á miðri heiðinni í kvöld en þar er hálka og bálhvasst. Þá fauk rúta út af veginum á hringveginum við Ingólfsfjall um kl. 18:15, en þar er óveður að sögn Vegagerðarinnar. Engan hefur sakað.

Búið að sækja fólkið sem var í rútunni og er það komið  í öruggt skjól, en starfsmenn rútufyrirtækisins kom fólkinu til aðstoðar. Að sögn lögreglu eru umferðartafir á veginum vegna atviksins, en aðeins önnur akreinin er opin þessa stundina.

Ekki hafa borist tilkynningar um aðra bíla sem hafa farið út af á Hellisheiði.

Lögreglan segir að það sé ekkert ferðaveður fyrir stóra bíla eða bíla sem eru með aftanívagna, hvorki á Hellisheiði né við Ingólfsfjall. Þá barst tilkynning um að þakplötur hefðu fokið af húsi á Selfossi í kvöld. Lögreglan segir að bifreið hafi skemmst.

Vindstyrkurinn á Hellisheiði hefur mælst 23 metrar á sekúndu í hviðum. Í Þrengslum hafa hviðurnar farið upp í 28 metra á sekúndu.

Meðfylgjandi myndskeið tók Böðvar Guðmundsson í Bláfjöllum á sjöunda tímanum í kvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert