Snjókoma á Hellisheiði

Það er kominn vetur ef marka má veðurspá dagsins.
Það er kominn vetur ef marka má veðurspá dagsins. mbl.is/Rax

Kuldaskil verða á leið suður yfir vestanvert landið í dag. Með morgninum hvessir af norðvestan og norðan um landið norðvestanvert og snjókoma og fjúk, einnig á láglendi. Eins verður snjókoma og hálka í hægum vindi á fjallvegum vestanlands fram undir hádegi, meðal annars á Hellisheiði. Veðrið versnar og það fer að snjóa á Norðurlandi um og upp úr hádegi, segir í tilkynningu frá Vegagerðinni um færð á vegum.

Ferðalög milli landshluta geta orðið erfið í dag og á morgun, einkum á norðurhelmingi landsins. Þetta á einkum við bíla sem eru vanbúnir til vetraraksturs, segir í viðvörun frá Veðurstofu Íslands.

Það er hálka á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum enda snjóar á svæðinu. Hálka eða hálkublettir eru víða á Suðurlandi, jafnvel krap eða snjóþekja í uppsveitum.

Hálkublettir eru á Mýrum og Vatnaleið en hálka á Fróðárheiði en þar snjóar. Hálka er á köflum í Borgarfirði og norður yfir Holtavörðuheiði. Krap er á Bröttubrekku og sumstaðar hálka eða hálkublettir í Dölum. Snjóþekja, krap eða nokkur hálka er allvíða á Vestfjörðum og Ströndum.

Það er hálka eða hálkublettir á köflum í Húnavatnssýslum en vegir að mestu auðir í Skagafirði og við Eyjafjörð. Hálkublettir eru á Hólasandi, í Mývatnssveit og á Mývatns- og Möðrudalsöræfum. Þæfingsfærð er á Hellisheiði eystri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert