Tók koníakið með

Mynd úr safni
Mynd úr safni Jóra Jóhannsdóttir

Óboðinn gestur olli miklum usla á hótelbar í miðborg Reykjavíkur í gærkvöldi. Honum tókst að brjóta nokkrar áfengisflöskur áður en hann rölti á brott með koníak af bestu gerð.

Starfsmaður hótelsins óskaði eftir aðstoð lögreglu á tólfta tímanum í gærkvöldi eftir að gesturinn óboðni var farinn að hrifsa til sín áfengisflöskur af barnum. 

Þegar hann þreif til sín eina flöskuna duttu nokkrar aðrar í gólfið og brotnuðu. Hótaði maðurinn starfsmanninum öllu illu og reyndi að kýla hann þegar starfsmaðurinn reyndi að stöðva för hans.

Lögreglumenn höfðu uppi á manninum á gangi með veigarnar, sem var koníak af betri gerðinni. Maðurinn var í annarlegu ástandi og gistir fangageymslu.

Um eittleytið í nótt stöðvaði lögreglan síðan för ökumanns í Norðlingaholti sem var undir áhrifum fíkniefna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert