Varað við versnandi veðri

Björgunarsveitarmenn eru öllu vanir. Mynd úr safni.
Björgunarsveitarmenn eru öllu vanir. Mynd úr safni. mbl.is/Golli

Búið er að ná rútu aftur upp á veg sem fauk út af hringveginum við Ingólfsfjall skammt frá Selfossi á sjöunda tímanum í kvöld. Um 20 manns voru í rútunni en engan sakaði. Ekki liggur fyrir hvort rútan hafi skemmst mikið. En er mjög hvasst á svæðinu.

Fyrr í kvöld voru björgunarsveitarmenn kallaðir út á Hellisheiði vegna flutningabíls sem fór útaf veginum á miðri heiðinni. Nánari upplýsingar um afdrif hans liggja ekki fyrir. Samkvæmt lögreglunni á Selfossi var þó minna um aðstoðarbeiðnir en hún átti von á í kvöld.

Björgunarfélag Árborgar var hins vegar kallað út í kvöld vegna óveðurs, en þakplötur losnuðu af húsi á Selfossi. Hafði a.m.k. ein þeirra fokið á bíl og skemmt hann. Búið er að koma í veg fyrir að fleiri plötur fjúki af húsinu, en Slysavarnafélagið Landsbjörg bendir á að fljúgandi þakplata getur valdið miklum skaða.

Veðurstofan varar við versnandi færð um landið norðanvert, en hún segir að ferðalög milli landshluta geti orðið erfið. Þetta eigi einkum við bíla sem séu vanbúnir til vetraraksturs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert