Bandaríkin geri hreint fyrir sínum dyrum

Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi utanríkisráðherra.
Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi utanríkisráðherra. mbl.is/Eyþór Árnason

„Við töldum enga ástæðu til þess að efast um það sem okkar menn voru að gera og fundu þarna. Þess vegna sögðum við frá því. Það var líka stutt áliti frá Dönum að minnsta kosti og jafnvel Bretum líka. þess vegna kom það mjög á óvart þegar Bandaríkjamenn héldu allt öðru fram. Við höfðum hins vegar enga möguleika á því að gera neitt meira í þessu.“

Þetta segir Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, í samtali við mbl.is en margt þykir benda til þess að sinnepsgas hafi verið í sprengikúlum sem íslenskir sprengjusérfræðingar fundu í Írak árið 2003. Bandaríkjamenn héldu því hins vegar fram í kjölfar rannsóknar að svo hafi ekki verið. Halldór var þá utanríkisráðherra. Hann bendir á að Saddam Hussein, þáverandi forseti Íraks, hafi verið bandamaður Bandaríkjanna þegar hann háði stríð við Íran á sínum tíma. Efnavopn hafi verið notuð í þeim átökum og þá hafi Hussein einnig notað slík vopn gegn eigin fólki. Þar á meðal Kúrdum.

„Þannig að allt þetta var vitað. En það hefur sjálfsagt komið illa við kauninn á Bandaríkjamönnum að komast að því að efnavopn sem leyndust í Írak væru að minnsta kosti að einhverjum hluta komin frá þeim og má vera að þeir hafi viljað hylma yfir það. Mér finnst núna að þeir þurfi að gera hreint fyrir sínum dyrum og skýra frá því sem þarna hefur raunverulega gerst og að menn séu ekki hafðir að fíflum sem vildu aðstoða við það að finna sprengjur sem voru hættulegar almennum borgurum,“ segir hann og bætir við að hann sé þeirrar skoðunar að íslensk stjórnvöld ættu að leita skýringa á málinu.

„Það var vitað mál að Saddam hafði notað efnavopn. Það gat vart annað verið en að einhver efnavopn væru enn í landinu. Það var mjög ólíklegt að honum hefði tekist að fela þau öll eða eyða þeim. En vonandi kemur hið sanna í ljós.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert