Farþegarnir héldu ró sinni

Færðin var slæm á hring­veg­in­um við Ing­ólfs­fjall í gær.
Færðin var slæm á hring­veg­in­um við Ing­ólfs­fjall í gær.

„Rútan fauk bara til að framan og endaði út af veginum. Veðrið var einkar slæmt, það voru 37 metrar á sekúndu,“ segir Róbert Agnarsson, starfsmaður rútufyrirtækisins ÞÁ bíla en rúta á vegum fyrirtækisins fauk út af hring­veg­in­um við Ing­ólfs­fjall um klukkan 18.15 í gær. Starfsmenn ÞÁ bíla, þar á meðal Róbert, drifu sig á staðinn og komu fólkinu í rútunni til aðstoðar.

„Aðkoman var bara fín fyrir utan rokið. Við komum á annarri rútu og náðum í farþegana. Við keyrðum þá síðan bara til sinna heimahaga,“ segir hann og bætir við að fólkið hafi haldið stóískri ró.

„Farþegarnir voru alls ekki skelkaðir. Þetta voru starfsmenn sýsluskrifstofunnar á Selfossi. Það urðu engin slys á fólki og rútan er í góðu ástandi. Hún var bara þrifin og fór í túr klukkan átta í morgun. Rútan var í toppstandi, á nýjum dekkjum og allt nýtt í bremsum. Þetta skeður bara svo hratt að það er varla hægt að ráða við þetta,“ segir hann en þess má geta að tuttugu og tveir farþegar voru um borð í rútunni.

„Annars þurfum við alltaf að passa okkur á þessum vindhviðum. Ef það er mikið rok þarf að velja réttu bílana í það. Þeir bílar sem eru með mótorinn í afturhlutanum eru léttir að framan. Við þurfum að vera meðvitaðir um það,“ segir Róbert að lokum.

Ingólfsfjall.
Ingólfsfjall. Ljósmynd/Bjarni Hákonarson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert