Snjór og hálka í höfuðborginni

Það var jólalegt í Hlíðahverfinu snemma í morgun
Það var jólalegt í Hlíðahverfinu snemma í morgun mbl.is/Sunna

Það hefur snjóað þó nokkuð á höfuðborgarsvæðinu og sennilega einna mest vestan Elliðaáa. Fyllsta ástæða er til að hvetja fólk til að fara varlega í umferðinni því þrátt fyrir að það sé búið að salta er víða mjög hált, segir starfsmaður framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar.

Starfsmenn framkvæmdasviðs voru mættir á vaktina um hálffjögurleytið í nótt og hafa þeir lokið við að salta allar helstu leiðir borgarinnar. Verið er að byrja að moka götur og göngustíga vestan Elliðaáa en svo óvenjulega vill til að það er meiri snjór í Vesturbænum og miðbænum en í úthverfunum.

Hálka á Suðurnesjum

Lögreglan á Suðurnesjum biður fólk að fara varlega í umferðinni þar sem töluverð hálka er í Reykjanesbæ og víðar á Suðurnesjum en þar hefur snjóað töluvert nú undir morgun. 

Veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands segir að það muni hætta að snjóa fljótlega á höfuðborgarsvæðinu sem og á Vesturlandi en áfram verði éljagangur fram eftir morgni. Snjó mun síðan væntanlega taka upp á morgun þegar spáð er hlýnandi veðri.

Enn er mjög hvasst víða á Norðausturlandi, einkum meðfram ströndinni. Eins er talsvert rok á Egilsstöðum og fylgir snjókoma hvassviðrinu fyrir norðan og víða fyrir austan. Aftur á móti er ágætisveður á Akureyri, að sögn veðurfræðings.

Á Akureyri er snjór yfir öllu og voru þrír árekstrar tilkynntir til lögreglu þar í bæ í gærkvöldi. Má rekja þá alla til hálku, að sögn lögreglunnar.

Varað er við ferðalögum milli landshluta á farartækjum vanbúnum til vetraraksturs en þæfingsfærð er víða á heiðum.

Veðurspá fyrir næsta sólarhring: Norðvestan 18-25 m/s og snjókoma eða él á N- og A-landi, hvassast á annesjum, en annars yfirleitt mun hægari og dálítil él. Dregur smám saman úr vindi og ofankomu í dag. Norðvestan 10-15 og él NA-til í kvöld, en annars hæg breytileg átt og bjart með köflum. Vaxandi austanátt og þykknar upp í nótt, 8-15 og slydda eða rigning S-lands á morgun, en snjókoma fyrir norðan. Hiti víða kringum frostmark, en 1 til 6 stig syðst á morgun.

Mikil hálka er á götum á höfuðborgarsvæðinu. Þessi mynd er …
Mikil hálka er á götum á höfuðborgarsvæðinu. Þessi mynd er tekin á Smiðjuveginum í Kópavogi í morgun. Þar er glerhált. mbl.is
Það snjóaði hressilega í höfuðborginni í morgun.
Það snjóaði hressilega í höfuðborginni í morgun. mbl.is/Gúna
Snjór er yfir öllu á höfuðborgarsvæðinu og það borgar sig …
Snjór er yfir öllu á höfuðborgarsvæðinu og það borgar sig að fara varlega í umferðinni. mbl.is/Sunna
Það var snjór yfir öllu í morgun í Reykjavík
Það var snjór yfir öllu í morgun í Reykjavík mbl.is/Sunna
Á Miklubraut um sjöleytið í morgun
Á Miklubraut um sjöleytið í morgun mbl.is/Sunna
Horft yfir Fossvoginn í morgun
Horft yfir Fossvoginn í morgun Ljósmynd Klaudia Wirkus
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert