UNICEF á Íslandi bregst við ebólu

Lamine litli er 14 mánaða og missti báða foreldra sína …
Lamine litli er 14 mánaða og missti báða foreldra sína úr ebólu Ljósmynd/UNICEF

„Það eina sem við getum gert hér til að verjast ebólu er að koma í veg fyrir að veiran breiði úr sér í Vestur-Afríku,“ segir Sólveig Jónsdóttir, kynningastjóri og fjölmiðlafulltrúi UNICEF á Íslandi. „Við verðum að gera allt sem við mögulega getum til að veita fólki hjálp sem þarf á henni að halda, þó að það búi langt í burtu.“

UNICEF setti á dögunum af stað neyðarsöfnun til að efla enn frekar aðgerðir gegn ebólufaraldrinum, en yfir 9.000 tilfelli hafa nú komið upp og þar af hafa 4.555 manns látist af völdum veirunnar. Faraldurinn geisar harðast í Síerra Leóne, Líberíu og Gíneu og áætlar UNICEF að yfir fjögur þúsund börn séu nú munaðarlaus eftir að hafa misst foreldra sína vegna ebólu. Af ótta við smit eru hins vegar mörg dæmi um að börn séu yfirgefin og nánast útskúfuð af samfélögum sínum sem gerir ástandið enn erfiðara að sögn Sólveigar.

Ágóði söfnunarinnar rennur bæði til meðhöndlunar á þeim sem nú þegar eru smitaðir af veirunni, og til forvarna í þeim ríkjum sem verst eru sett. UNICEF styrkir meðferðarstöðvar og útvegar þeim næringarsölt, næringu í æð, sótthreinsibúnað, hreint vatn og hreinlætisaðstöðu. Þá dreifir UNICEF hjálpargögnum og fræðsluefni til að upplýsa fólk um veiruna og hvernig forðast megi smit. Nú þegar hafa verið send yfir 1.300 tonn af hjálpargögnum til Síerra Leóne, Líberíu og Gíneu.

Hægt að breyta miklu því þörfin er mikil

Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, var í Síerra Leóne árið 2011 og þekkir því heilbrigðiskerfið í landinu. Hann segir verulega erfitt fyrir svo fátækt land að bregðast við faraldrinum. „Það er rosalega mikil áskorun fyrir svona veikt kerfi að taka svona baráttu. Fyrir voru ekki nema 120 starfandi læknar innan heilbrigðiskerfisins fyrir 6 milljónir manna,“​ segir hann. Bergsteinn segir þörfina því mikla, og með neyðarsöfnuninni sé hægt að breyta miklu.

UNICEF hefur starfað um árabil í Vestur-Afríku og jók strax allar aðgerðir sínar til muna eftir að fyrstu ebólusmitin komu upp í mars á þessu ári. Bergsteinn segir þó mikið af stórum krísum hafa verið í gangi í heiminum, og því hafi ebólan ekki fengið þá athygli heimsbyggðarinnar sem hún þurfti, „þess vegna erum við að blása í lúðrana núna.“

Bergsteinn segir Te & kaffi, sem er samstarfsaðili UNICEF, hafa ákveðið að vera með átak samferða neyðarsöfnuninni, þar sem gefnar eru 25 krónur af hverjum seldum drykk í söfnunina. Með 25 krónum er hægt að útvega dagsskammt af næringarsöltum sem eru mikilvæg til að koma í veg fyrir ofþornun hjá ebólusjúklingum. Það er í raun eina meðferðin sem veitt er við ebólusmiti, en með þessu er hægt að styðja við líkamann svo ónæmiskerfið geti sjálft unnið úr veirunni en engin eiginleg lækning eða bóluefni er til við ebólu.

Ákveðið ljós í myrkrinu

Greint var frá því í dag að Nígería væri nú laus við ebólufaraldurinn, en engin ný smit hafa greinst í landinu frá 5. september eða í sex vikur. Á föstudag var Senegal lýst ebólulaust af Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO) en ef engin ný smit greinast á sex vikna tímabili, það er tvöföldum meðgöngutíma sýkingar, er landið lýst laust við ebólu. Að sögn Sólveigar er þetta ákveðið ljós í myrkrinu þrátt fyrir að tilfellum fjölgi enn óhugnarlega hratt í Líberíu, Síerra Leóne og Gíneu.

Með því að senda sms-ið STOPP í númerið 1900 gefur fólk 1.900 krónur til að efla neyðaraðgerðir UNICEF á þeim svæðum þar sem ebóla geisar og leggur jafnframt sitt af mörkum til að styðja við aðgerðir UNICEF til að hefta útbreiðslu faraldursins. Nánari upplýsingar má svo finna á www.unicef.is/neyd.

Sólveig Jónsdóttir, kynningastjóri og fjölmiðlafulltrúi UNICEF á Íslandi
Sólveig Jónsdóttir, kynningastjóri og fjölmiðlafulltrúi UNICEF á Íslandi
Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi
Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert