Vindur fór upp í 51 m/sek

Faxi RE á miðunum.
Faxi RE á miðunum. Af vef HB Granda

Faxi RE kom til Vopnafjarðar um miðja síðustu nótt eftir erfiða siglingu frá síldarmiðunum vestan við landið. Farið var suður fyrir land vegna norðanóveðursins sem geisað hefur síðasta sólarhringinn en að sögn Alberts Sveinssonar skipstjóra var þó stormur alla leiðina. Mest sló vindhraðamælirinn í 51 m/sek. Þar sem siglt var nærri landi alla leiðina var sjólag þó ekki slæmt, segir í frétt á vef HB Granda.

„Það má segja að veðrið hafi ekki gengið niður að gagni fyrr en við vorum að nálgast höfnina á Vopnafirði,“ er haft eftir Alberti en hann segir að áætlaður afli í veiðiferðinni sé tæplega 900 tonn. 

Albert segir að ágæt veiði hafi fengist á veiðisvæðinu vestur af Jökli en þegar aflinn tregaðist þar fundust ágætar lóðningar djúpt í utanverðum Faxaflóa. Þar luku Albert og hans menn veiðiferðinni og þegar Faxi lagði upp í siglinguna voru nokkur skip búin að finna síld djúpt vestur af Malarrifi. Ekkert hefur verið leitað að síld á sundunum í nágrenni Stykkishólms síðan leit þar bar engan árangur fyrstu daga vertíðarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert