Adrenalínið hélt honum vakandi

Þarna átti Ágúst aðeins einn kílómetra eftir í mark.
Þarna átti Ágúst aðeins einn kílómetra eftir í mark. Mynd úr einkasafni

Ágúst Kvaran, prófessor í efnafræði við Háskóla Íslands, tók sig til um helgina og kláraði fjallahlaupið ROUT 2014 sem haldið er í Grikklandi. Hlaupið er 164 kílómetra langt og hafnaði Ágúst í 33. sæti af 120 þátttakendum. Jafnframt varð Ágúst í 2. sæti í aldursflokkum 50 ára og eldri, en Ágúst er 62 ára gamall.

„Þetta er alveg nyrst í Grikklandi, við landamæri Grikklands og Búlgaríu,“ segir Ágúst í samtali við mbl.is. „Þetta er þjóðgarður sem er kenndur við Rodobe fjöll og eiginlega algjör óbyggð, það er eitt pínulítið þorp sem einhverjar örfáar hræður búa í en eftir það er nánast ekki neitt. Það var mjög sérstakt, varla eða hús eða kofar, nema einhverjar fornar húsatóftir.“

Bætti sig um 4 og hálfan tíma milli ára

Ágúst hljóp sama hlaup í fyrra en segir að það hafi gengið mun betur í ár. Bætti hann sig til að mynda um 4 og hálfan tíma í ár og hljóp á rétt rúmlega 34 tímum. Þakkar hann auknu skipulagi um árangurinn og segir að hann hafi lært mikið af hlaupinu í fyrra.

„Í fyrra vissi ég eiginlega ekkert hvað beið mín og það tók mig töluvert lengri tíma í fyrra. Ég var mun skipulagðari núna og bætti mig mikið. Bætingin kom eiginlega sjálfum mér mest á óvart,“ segir Ágúst.

Eins og áður kom fram var hlaupið svokallað fjallahlaup og að sögn Ágúst var undirlagið ansi grýtt og erfitt að hlaupa í. „Ég var orðinn svo sárfættur í restina að það hvarflaði að mér að gefast upp. En svo ákvað ég að ég gat ekki gefist upp því ég var með blöðrur og ákvað að þrauka.“ 

Ágúst segir að hlaupið hafi gengið vonum framar, en af þeim 120 sem hófu hlaup þurftu 29 að hætta keppni. „Maður er mikið einn og ég vissi svo sem ekkert hvar ég var staddur fyrr en í restina. Þá kom í ljós að ég var í 33. sæti og í öðru sæti flokki 50 ára og eldri. Ég var voðalega montinn með það.“

Hlaupið var eins og áður kom fram í þjóðgarði, en helstu íbúar þar eru birnir og úlfar. Ágúst segist hafa verið meðvitaður um dýrin en að engin hætta hafi myndast. „Þetta var frekar sérstakt en myndaðist aldrei nein hætta. Sumir heimamenn sem tóku þátt í hlaupinu  hlupu með bjöllur til þess að fæla dýrin frá. Ég sá þau aldrei.“

Hljóp án hvíldar í 34 klukkustundir

Ágúst hljóp án hvíldar í rúmlega 34 klukkustundir. Sex drykkjarstöðvar voru í hlaupinu og þar gat hann byrgt sig vel upp af mat og drykk. „Það er voðalega sérstakt að vaka svona lengi, en það skrýtna er að maður verður ekkert syfjaður. Það var ekki fyrr en ég var búin sem það helltist yfir mig þreyta og mér leið eins og ég gæti varla haldið augunum opnum. Ætli það sé ekki adrenalínið sem heldur manni vakandi.“

Ágúst kom í mark eftir rúmlega 34 klukkustunda hlaup. Hann segir að tilfinningin sem fylgi því sé engu lík. 

„Maður fer þarna síðasta spottann og telur niður metrana. Það eru merkingar í restina sem sýna að það sé einn kílómetri eftir, 500 metrar, 250 metrar og svo framvegis. Þá myndast spenna og það er mjög tilfinningaþrungið að koma í mark. Það er líka svo mikil stemmning við markið og vel tekið á móti manni,“ segir Ágúst.

Undirbúningur Ágústar fyrir hlaupið hófst í janúar. Hægt og bítandi jók hann hlaupamagnið og var með kerfisbundnar æfingar. „Ég jók þetta jafnt og þétt og mánuði fyrir hlaupið náði ég hámarki. Eftir það fór ég að minnka magnið. Ég legg ekki mikla áherslu á hraða heldur fyrst og fremst að hlaupa í brekkum og fjöllum.“

Ágúst var í Grikklandi mánuð fyrir hlaupið, fyrst um sinn á Krít þar sem hann vann að rannsóknarstarfi með Grikkjum vegna vinnu sinnar. 

Glampandi sólin var lamandi

Aðspurður hvernig hafi viðrað í hlaupinu segir Ágúst að það hafi verið mjög heitt. „Seinni daginn náði hitinn alveg upp í 24 stig og það var glampandi sól. Það var ansi lamandi í restina. Einnig voru mestu brekkurnar á síðasta fjórðungnum sem var ansi erfitt ef ég á að vera hreinskilinn.“

Ágúst hljóp ofurhlaup í fyrsta skipti árið 1997. Það var 90 kílómetra hlaup í Suður Afríku. Eftir það fylgdu 100 kílómetra hlaup um allan heim. Hefur hann m.a. hlaupið í Frakklandi, Ítalíu, Englandi og í Sahara eyðimörkinni.

En hvað fær Ágúst út úr því að hlaupa í fjölmargar klukkustundir í oft erfiðum aðstæðum? „Ég sækist í þetta því þetta er áskorun. Sumir fara á Everest eða Norðurpólinn en ég tekst á við þetta. Stundum finnst manni þetta vera mikið álag og verður þreyttur á þessu. En þetta er mjög gefandi og ef manni tekst að klára þá er tilfinningin engu lík.“

Við rásmarkið klukkan 6 að morgni.
Við rásmarkið klukkan 6 að morgni. Mynd úr einkasafni
Ágúst við markið ásamt aðstandendum hlaupsins.
Ágúst við markið ásamt aðstandendum hlaupsins. Mynd úr einkasafni
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert