Engin sápa á RÚV?

Ástareldur er þýsk sápuópera.
Ástareldur er þýsk sápuópera. Skjáskot af Youtube

Þýska sápuóperan Ástareldur (þ. Sturm der Liebe) sem segir frá ástum og afbrýði eigenda og starfsfólks á Hótel Fürstenhof í Bæjaralandi, lýkur göngu sinni í janúar.

Ekki liggur fyrir hvað mun koma í stað Ástarelds en Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri RÚV, segist afar meðvitaður um þá þýðingu sem sápuóperur hafa fyrir ákveðinn hóp áhorfenda.

„Við erum að vona að við getum haldið áfram að veita þessa þjónustu. Við erum að leita logandi ljósi en þetta er raunar ekki efst á forgangslistanum okkar,“ segir Skarphéðinn og bendir á að RÚV sé þröngur stakkur búinn.

„Það var náttúrulega töluverður munur á áhorfinu á Ástareld og Leiðarljós en það var hinsvegar líka talsverður munur í kostnaði á þessu efni auk þess sem okkur rann blóðið til skyldunnar að sýna fram á að þessi tegund sjónvarpsefnis sé framleidd víðar en í Bandaríkjunum,“ segir Skarphéðinn.

Hann segir vel geta verið að leitað verði enn víðar þegar kemur að næstu sápu Rúv enda sé slíkt efni framleitt um allan heim. Hann segir að ekki sé hægt að lofa að það efni sem komi í stað Ástarelds verði beinlýnis sápuópera en er þó vongóður um að Rúv muni áfram geta haft ofan af fyrir þeim hópi sem reiðir sig á sápurnar.

Skarphéðinn Guðmundsson.
Skarphéðinn Guðmundsson.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert