Tólf ár að byggja bílskúr

Hafnarfjörður
Hafnarfjörður mbl.is/Sigurður Bogi

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur stöðvað framkvæmdir við bílskúr í Hafnarfirði á meðan málið er til meðferðar hjá nefndinni. Leyfi fékkst fyrir framkvæmdinni árið 2002 en fyrst í sumar hófust framkvæmdirnar. Nágrannar vilja að leyfi verði fyrnt og grenndarkynning fari fram að nýju.

Hinn 30. júlí 2002 var fyrirspurn um að rífa þáverandi bílskúr og byggja annan í hans stað við hús í Öldutúni tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar. Meðfylgjandi var samþykki nágranna og meðeigenda í húsi. Ráðið samþykkti að óska eftir fullnaðarteikningum og að heimila grenndarkynningu. Í desember 2003 samþykkti ráðið erindið. Þann 17. mars 2003 samþykkti svo byggingarfulltrúi byggingaráformin með áritun sinni á teikningar.

Það var svo ekki fyrr en 26. janúar 2005 sem tekin var fyrir umsókn um leyfi til að byggja bílskúr við húsið og var bókað að nýjar teikningar hefðu borist. Leyfið var samþykkt á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 23. febrúar sama ár. Þá voru í október 2009 enn samþykktar frekari breytingar á bílskúrnum og í sama mánuði byggingarleyfi. Í júní 2011 fór fram úttekt á plötu yfir kjallara bílskúrsins en fyrstu stoðir að útveggjum risu ekki fyrr en í sumar.

40% hærri en leyfilegt er

Nágrannar benda á að samkvæmt fundargerðum Hafnarfjarðabæjar hafi leyfi nágranna legið fyrir 24. júlí 2002 og hafi því liðið um 12 ár frá samþykki nágranna þar til steypumót risu að grunni bílskýlis. Einnig að ómögulegt hafi verið fyrir þá sem grenndarkynnt var fyrir að gera sér grein fyrir umfangi byggingarinnar þar sem lögum um aðaluppdrætti hafi ekki verið fylgt og teikningar sýnt bílskýlið eitt og sér með enga stærðarviðmiðun

Í kærunni segir að útveggir verði 3,9 metrar á hæð en megi ekki vera nema 2,8 metrar samkvæmt gildandi deiliskipulagi, hæðarmunur sé 1,1 m eða sem nemi um 40%. Deiliskipulag fyrir svæðið var samþykkt í nóvember 2008. Þá hafa nágrannar farið fram á að fá gögn um grenndarkynningu umrædds bílskýlis en þær hafi ekki fengist þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Hafi grenndarkynning farið fram telja nágrannar hana ómerka.

Úrskurðarnefndin segir í úrskurði sínum að ýmis álitamál séu uppi sem geti haft áhrif á gildi ákvörðunar skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 3. desember 2002 um að heimila niðurrif bílskúrs og byggingu annars í hans stað. Þótti því rétt að fallast á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert