Fljótari frá Akureyri en Kópavogi

Hálka og vandræði í Kópavogi í gær.
Hálka og vandræði í Kópavogi í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Styttra reyndist vera á milli Akureyrar og Kópavogs en Kópavogs og Kópavogs í gærdag. Kom þetta glöggt í ljós þegar Arnfríður Aðalsteinsdóttir, sérfræðingur á Jafnréttisstofu, fór með flugi frá Akureyri til Reykjavíkur og þaðan með leigubifreið á bæjarskrifstofur Kópavogs, þar sem hún hitti leikskólastjóra í Kópavogi sem höfðu verið tvo klukkutíma að ferðast frá heimili sínu í Kópavogi á bæjarskrifstofuna í Kópavogi þar sem fundurinn var haldinn.

Arnfríður hóf erindi sitt á því að gera góðlátlegt grín að þessari staðreynd og uppskar hún mikinn hlátur viðstaddra. Segir Arnfríður færðina í Kópavogi augljóslega hafa valdið töfum á ferð leikskólakennaranna og því ekki skrýtið að þær hafi verið svo miklu lengur á leiðinni. Aðspurð um færðina á Akureyri segir hún hana ekki hafa valdið neinum vandkvæðum, „við erum svo vön snjónum og bregðumst strax við“ bætir hún við. Góð stemning var á fundinum, þegar allir fundarmenn voru mættir á svæðið, en þar hélt Arnfríður fræðsluerindi um staðalmyndir kynjanna og tilgang jafnréttisáætlana í skólastarfi.

Segir Arnfríður að lokum að mikið hafi verið um að vera þegar hún mætti á bæjarskrifstofuna og síminn hringt látlaust. Vakti það athygli hennar að þeir starfsmenn bæjarins sem svöruðu téðum símhringingum hafi staðið sig með stakri prýði. „Ég dáðist að þeim,“ segir Arnfríður og bætir við að þær hafi tekið öllu með jafnaðargeði og sýnt mikið umburðarlyndi þegar mest lét.

Vetur konungur minnir á sig víða

Mannleg mistök í Kópavogi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert