Kjósa átök þegar friður er í boði

Gylfi Arnbjörnsson, formaður ASÍ, og Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra.
Gylfi Arnbjörnsson, formaður ASÍ, og Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

„Í ljós hafði komið að samstarfsaðilar okkar voru ekki traustsins verðir. Blekið var vart þornað á samningunum eða atkvæðagreiðslunum lokið þegar vanefndir ríkisstjórnarinnar hófust,“ sagði Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, á þingi sambandsins sem sett var á Hilton Nordica í morgun. 

Þar fjallaði hann meðal annars um kjaraviðræður síðasta vetrar. Sagði hann meðal annars að þeir samningar sem náðust í lok ársins 2013 hafi ekki verið óskasamningar. „Með þeim gerðum við 12 mánaða vopnahlé í formi aðfarasamnings til að undirbúa þá samninga sem við vildum að næðust á árinu 2014,“ sagði Gylfi.

Sömdu mun hærra við aðra hópa

„Þegar aðildarsamtök ASÍ og BSRB höfðu gengið til samninga um þessa tilraun til að ná stöðugleika sneru ríkisvaldið og sveitarfélögin við blaðinu og sömdu um launahækkanir við aðra hópa sem voru langt umfram það sem almennt launafólk hafði fengið. Til varð ný launastefna fyrir háskólamennta og kennara sem að sjálfsögðu mótaði  nýjan farvega fyrir þá samninga sem fylgdu í kjölfarið,“ sagði Gylfi. 

„Það er alveg ljóst að aðildarsamtök ASÍ munu ekki una því að launafólki sé mismunar með þessum hætti. Það verður ekki þannig að almennt launafólk beri eitt ábyrgð á stöðugleika og lágri verðbólgu, á meðan aðrir sækja sér aukinn kaupmátt umfram aðra með meiri launahækkunum,“ sagði Gylfi. 

„Ljóst má vera að þær launahækkanir verða ekki fjármagnaðar öðruvísi en með hærra verðlagi, hærri gjaldskrám, hærri sköttum eða minni velferðarþjónustu á næstu misserum. Og það er almennt launafólk sem ber skaðann.“

Gylfi sagði að þrátt fyrir að tekist hefði að kveða niður verðbólgu, að minnsta kosti tímabundið, benti allt til þess að sú tilraun sem gerð var með samningunum í desember árið 2013 hafi mistekist.

Erfiðar ákvarðanir og breytt samningsstaða

„Í stað þess að uppskera eins og sáð var til, stöndum við frammi fyrir erfiðum ákvörðunum og breyttri samningsstöðu,“ sagði Gylfi.

„Nú er einfaldlega komið nóg. Það er ljóst að ríkisstjórnin er fyrir ríka fólkið og verkalýðshreyfingin verður að beita afli sínu til að forða því að Ísland framtíðarinnar verði land misskiptingar og glataðra tækifæra. Land þar sem fyrirtækjum og efnafólki er hyglað á kostnað alls almennings.“

„Alþýðusambandið hefur alltaf verið tilbúið til þess að finna sanngjarnar og réttlátar lausnir og til þess að leiða erfið deilumál til lykta með kjarasamningum og sátt. Það er okkar stefna að víðtækur félagslegur og efnahagslegur stöðugleiki sé besta og vísasta leiðin til þess að byggja upp lífskjör og jöfnuð hér á landi eins og best gerist, til þess að byggja upp samfélag fyrir
alla,“ sagði Gylfi. 

„En ágætu félagar. Það er ljóst að það hefur ekki tekist að mynda breiða samstöðu um þessa leið. Framganga stjórnvalda og sinnuleysi við að leggja slíkri leið nauðsynlegan grunn í formi réttlátrar tekjuskiptingar og eflingar velferðar- og menntakerfis og krafa atvinnurekenda um að rýra enn frekar hag launafólks með kröfu um gengisfellingu íslensku krónunnar segir okkur að þessir aðilar kjósa átök þegar friður er í boði.“

Hér má sjá ræðu Gylfa Arnbjörnssonar í heild sinni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert