Rafbyssur ræddar en ekki hríðskotabyssur

Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar.
Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Hálfkæringur og óljós svör vegna vopnavæðingar lögreglunnar valda áhyggjum. Þau eru ekki til þess fallin að draga úr áhyggjum þeirra landsmanna sem leggja áherslu á það að búa í friðsamlegu og vopnlausu samfélagi. Það er ekki málefni sem embættismenn eiga að taka ákvörðun um eða ráðherra hefur sem einkamál hvort ráðist er í stórfellda öflun á hríðskotabyssum til að setja í miklum mæli í almennar lögreglubifreiðar og leyna því fyrir þjóðinni og þinginu þegar það er gert.“

Þetta sagði Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag. Sagði hann það stóra stefnubreytingu í íslensku samfélagi sem þyrfti bæði að ræða við þjóðina og í þinginu og meta meðal annars út frá öryggi lögreglumannanna sem í hlut ættu og út frá öryggismálum samfélagsins í heild. Sagði hann það „algerlega fáránlegt og Alþingi fullkomlega til háðungar“ að ræða á Alþingi fram og til baka kosti og galla þess að lögreglan mætti hafa rafbyssur ef síðan þyrfti hvorki að spyrja þjóðina né þingið þegar 150 hríðskotabyssur væru annars vegar.

„Þetta er samfélag okkar allra, þessar upplýsingar koma okkur öllum við. Það er sjálfsagt að ræða álitaefnið, hvernig best megi haga löggæslu- og öryggismálum í landinu, en það verður ekki gert best með leyndarinnflutningi og einkaákvörðunum ráðherra fram hjá þingi og þjóð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert