Að bjarga barni bjargar mannkyninu

SPES barnaþorp
SPES barnaþorp Ljósmynd Bera Þórsdóttir

Börn eru sannarlega uppspretta mikillar gleði og geta með vangaveltum sínum um lífið og tilveruna glatt mann óendanlega. Til þess að börn geti blómstrað þurfa þau vissulega gott atlæti, vitsmunalega örvun og framar öllu ást og umhyggju. Því miður er það ekki raunin hjá öllum heimsins börnum því sum eru munaðarlaus og illa haldin. Hugsjónafélagið SPES hefur búið fjölda slíkra barna heimili.

Þegar börnum í Tógó í Vestur-Afríku er komið í hendur sjálfboðaliða SPES er ástand barnanna oftar en ekki afleitt, bæði líkamlega og andlega. Mörg þeirra eru vannærð og hafa ef til vill misst foreldra sína eða orðið útundan í stórum hópi systkina þar sem ekki er nægur matur fyrir alla. Hlutverk SPES er að koma upp og reka heimili fyrir munaðarlaus börn og líka þau börn sem enginn getur sinnt vegna sérstakra aðstæðna. Kjörorð SPES eru þau sömu og fyrirsögn þessarar greinar: „Sá sem bjargar einu barni bjargar mannkyninu“ og þau orð hafa hjónin Bera Þórisdóttir og Njörður P. Njarðvík haft að leiðarljósi í fjölda ára í tengslum við vinnu sína með börnunum í Tógó. Þau eru á meðal upphafsmanna SPES, alþjóðlegrar barnahjálpar sem nú rekur tvö barnaheimili í Tógó. SPES, sem er latína og þýðir von, hefur verið starfandi síðan árið 2000 og er margt sannast sagna áhugavert við rekstur barnaheimilanna tveggja. Því komst blaðamaður að þegar tækifæri gafst til að hitta að máli þá Njörð P. Njarðvík og Claude Gbedey. Sá fyrrnefndi ræðismaður Tógó á Íslandi og sá síðarnefndi ræðismaður Íslands í Tógó. Gbedey er aðalumsjónarmaður starfs SPES í Tógó og gegnir starfi fjármálastjóra félagsins. Hann var staddur hér á landi fyrir skemmstu og var áhugavert að ræða um börnin í Tógó við þá Njörð. Sjálfur er Gbedey borinn og barnfæddur í Tógó en menntaði sig í viðskiptafræði í Þýskalandi. „Ég vann í bankanum en nú er ég kominn á eftirlaun og ver tíma mínum í að sjá um munaðarlaus börn innan vébanda SPES,“ segir Gbedey.

Allir vinna kauplaust

Eitt af því fyrsta sem kom á óvart í samtalinu var sú staðreynd að öll vinna að baki SPES er unnin í sjálfboðavinnu. Gbedey vinnur án þess að fá nokkuð greitt fyrir og það sama á við um alla aðra er að barnahjálpinni koma. „Þeir fjármunir sem til SPES koma fara beint í umönnun barnanna. Ekkert fer í yfirbyggingu, ferðalög eða umsýslukostnað. Allt starfið er án endurgjalds,“ segir Njörður.

SPES á sér engar höfuðstöðvar eða skrifstofur og þannig er þetta mögulegt. Til dæmis greiða þau Njörður og Bera sjálf fyrir ferðir sínar til og frá Tógó til að gæta þess að ekkert í sambandi við starfsemi SPES sé tekið af fjármununum sem ætlað er að styrkja börnin. Það sama á við um ferðakostnað Gbedeys. „Þegar ég kem til Íslands greiði ég úr eigin vasa,“ segir hann. Styrktarforeldrar barnanna eru á Íslandi og í níu öðrum löndum og er mikil þörf á fleiri foreldrum núna. Af börnunum 170 njóta 58 stuðnings íslenskra foreldra.

„Í dag eru börnin sem við sjáum um í Tógó 170 talsins. Þau eru í okkar umsjá frá því þau eru mjög ung og þar til þau hafa náð fullorðinsaldri,“ segir Gbedey. Það miðast við átján ára aldur en þau elstu á heimilinu eru nú orðin sextán ára og segir Njörður að þeim verði hjálpað að finna sér nám eða starf við hæfi þegar þar að kemur en engum verði hent út í djúpu laugina daginn sem hann verður átján ára.

Lánsamur maður

Mikið er lagt upp úr að börnin finni að þau séu heima hjá sér en ekki á munaðarleysingjahæli. Barnaþorpin í Tógó eru annars vegar í Lóme og hins vegar í bænum Kpalimé. „Þau ganga í skóla rétt eins og önnur börn og þau yngri eru í venjulegum leikskólum. Á okkar vegum eru bæði læknir og sálfræðingur sem fylgjast með börnunum. Þau alast upp hjá okkur við mjög góðar aðstæður, jafnvel betri en gengur og gerist hjá börnum í Tógó almennt,“ segir Gbedey sem lítur á það sem forréttindi að fá að nýta eftirlaunaárin með börnunum í SPES-þorpinu. „Ég er lánsamur og ég vil gefa þeim tíma minn. Það sem mestu máli skiptir er að gefa börnunum von og við gefum þeim von,“ segir hann. Þó svo að fólk í Tógó sé alla jafna ekki auðugt eru þeir til sem leggja börnum SPES lið með stuðningi sínum. Til dæmis eru tvær systur Gbedeys styrktarforeldrar tveggja barna.

„Þeir sem halda utan um barnaþorpin í Tógó eru heimamenn og þeir sjá um börnin dags daglega. Við viljum að börnin alist upp við siði og venjur lands síns,“ segir Njörður. Gengið er þannig frá málum við yfirvöld að SPES tekur alla ábyrgð á börnunum, rétt eins og foreldri.

Það er ljóst að börnin skipta þá sem halda utan um SPES miklu máli og má sjá blik í augum Gbedeys þegar hann segir blaðamanni frá því að þau kalli hann „pepe“ og fagni honum iðulega ákaft þegar hann kemur á heimili barnanna. „Vertu velkominn, pepe!“ segja þau brosandi.

„Á síðasta ári veiktist ég og dvaldi um þriggja mánaða skeið í Frakklandi. Ég saknaði þeirra svo sárt og þau söknuðu mín líka. Þegar ég kom til baka sögðu þau: Pepe, vonandi ertu orðinn hress,“ segir Gbedey og þurrkar tárin sem brutust fram við upprifjunina. Tárin eru líka gleðitár því Gbedey er maður með stórt hjarta þar sem rúm er fyrir öll þau börn sem þurfa á aðstoð að halda.

Börn frá Tógó ættleidd

Gbedey hefur á síðastliðnum tveimur árum komið að ættleiðingum nokkurra barna frá Tógó hingað til lands og segir hann að mikið ánægjuefni sé að börn geti eignast góða fjölskyldu og framtíð. „Ég hitti þrjú þeirra í gær og þau voru mjög kát og ljóst að þeim líður vel. Það er nú það mikilvægasta. Þau eru búin að læra íslensku og hafa aðlagast vel,“ segir og Claude Gbedey hjá SPES. Hvort sem börnin eru ættleidd eða styrkt af styrktarforeldrum er markmiðið alltaf það sama eins og þeir Njörður og Gbedey hafa útskýrt. Það er að gefa börnum það sem þau þurfa: Ást, umhyggju, öryggi, fræðslu og síðast en ekki síst von um góða framtíð.

Þeir sem vilja bætast í hóp styrktarforeldra geta gengið frá umsókn á síðu SPES, www.spes.is.

Claude Gbedey og Njörður P. Njarðvík
Claude Gbedey og Njörður P. Njarðvík mbl.is/Malín Brand
Íbúar í SPES barnaþorpi
Íbúar í SPES barnaþorpi Ljósmynd Bera Þórsdóttir
SPES barnaþorp
SPES barnaþorp
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert