Alvarlegt bílslys í Skagafirði

Þrír hafa verið fluttir á sjúkrahús eftir alvarlegt bílslys í Blönduhlíð í Skagafirði í hádeginu í dag.

Slysið varð með þeim hætti að tveir bílar skullu saman og hlaut fólkið töluverða áverka.

Hálka og snjóþekja var á veginum þegar slysið varð. 

Tveir voru í öðrum bílnum og einn í hinum og voru ökumennirnir og farþeginn fluttir með sjúkrabílum á Sjúkrahúsið á Akureyri. 

Uppfært kl. 14:46

Samkvæmt upplýsingum frá Sjúkrahúsinu á Akureyri er fólkið í rannsókn. Einn er heldur meira slasaður en hinir tveir. Fólkið er ekki í lífshættu.

Uppfært kl. 15:43

Beita þurfti klippum til að ná farþeganum úr öðrum bílnum en hann slasaðist mikið á fæti. Í bílnum voru tveir erlendir ferðamenn, karlmaður og kona. 

Bílarnir eru báðir gjörónýtir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert