Bankastarfsemi verði aðskilin

Alþingi
Alþingi mbl.is/Ómar

Tíu þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar um aðskilnað tarfsemi fjárfestingarbanka og viðskiptabanka. Lagt er til að Alþingi feli fjármála- og efnahagsráðherra að útbúa lagafrumvarp sem tryggi slíkan aðskilnað og það verði gert með það að markmiði að lágmarka áhættu þjóðarbúsins vegna bankareksturs og minnka líkur á tjóni almennings af völdum áfalla í bankastarfsemi. 

Álfheiður Ingadóttir, varaþingmaður Vinstri grænna, er fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögunnar, en aðrir þingmenn sem standa að baki tillögunni koma frá Vinstri grænum, Samfylkingunni, Bjartri framtíð og Pírötum.

Þetta er í áttunda sinn sem þingmál er lagt fram sem hefur það að markmiði að skilja á milli starfsemi fjárfestingarbanka og viðskiptabanka. Í fyrirliggjandi tillögu til þingsályktunar er gert ráð fyrir að samið verði og lagt fyrir Alþingi lagafrumvarp sem tryggi þennan aðskilnað.

Bankastarfsemin sem hér um ræðir, annars vegar rekstur fjárfestingarbanka og hins vegar starfsemi almennra viðskiptabanka, er gjörólík þannig að mikið álitamál er hvort þessi rekstur geti átt farsæla samleið í einu og sama fyrirtækinu ef mat á því fer fram á forsendum almannahagsmuna en ekki sérhagsmuna þeirra sem eiga og starfrækja fjármálafyrirtækin,“ segir í greinargerð með tillögunni.

Þar segir jafnframt að með því að blanda saman almennri bankastarfsemi og hinum áhættusækna fjárfestingarbankarekstri skapist hætta á að tjóni vegna fjárfestinga sem farið hafa í súginn lendi á almenningi í stað þess að það hafni allt og óskipt hjá þeim sem gerðu hinar áhættusömu ráðstafanir.

Hér má sjá tillöguna í heild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert