Birting kjörskrárinnar ólögmæt

Seljakirkja.
Seljakirkja. mbl.is/Jim Smart

Persónuvernd hefur tekið ákvörðun um að birting kjörskrár vegna prestskosninga þjóðkirkjunnar í Seljaprestakalli hafi verið ólögmæt. Þetta kemur fram í dómi Persónuverndar. Þar segir að birting kjörskrárinnar á vefsíðu þjóðkirkjunnar samrýmdist ekki lögum nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Persónuvernd beinir þeim tilmælum til þjóðkirkjunnar að láta af birtingu kjörskráa vegna kosninga á hennar vegum og fjarlægja þær kjörskrár sem nú eru birtar á vefsíðu þjóðkirkjunnar.

Í ágúst fóru fram kosningar til sóknarprests í Seljakirkju, og hlaut sr. Ólafur Jóhann Borgþórsson yfirgnæfandi meirihluta atkvæða, eða um 97%.

Þann 15. ágúst 2014 barst Persónuvernd ábending um að kjörskrá vegna prestskosninga í Seljaprestakalli væri aðgengileg á vefsíðu þjóðkirkjunnar en viðkomandi aðili vakti athygli á því að í kjörskránni væru upplýsingar um trúarskoðanir þeirra einstaklinga sem væru tilgreindir á skránni.

Forstjóri Persónuverndar ákvað að víkja sæti við frekari meðferð ábendingarinnar vegna starfa sinna fyrir kjörstjórn þjóðkirkjunnar. Þá hafði formaður stjórnar Persónuverndar umsjón með málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert